Leifur Finnbogason
Leifur Finnbogason
Eftir Leif Finnbogason: "Ég trúi því samt að við getum tekið það besta úr mannleikanum og sameinast um rökvísi og gagnrýninn anda."

Það er svo margt sem ég elska við Ísland. Til dæmis hvað við erum alltaf of sein í allt. Hvað við gerumst sprengjuglöð um áramótin. Hvað yngri kynslóðin sveiar við ættgleði eldri kynslóðarinnar. Hvað við rísum upp sperrt þegar útlönd minnast á okkur. Hvernig við tökum til okkar alla gagnrýni á það sem íslenskt er. Að við séum með slíkt mikilmennskubrjálæði að við trúum því að við getum allt sem útlönd geta. Að við séum þó nógu jarðtengd til að fagna þeim árangri sem næst, hver sem hann annars er, og telja hann frábæran miðað við höfðatölu.

Ég sit í gróinni hlíð og lít útsýnið. Hver er uppistaðan í því sem íslenskt er? Er eitthvað í vatninu, því sem seytlar sofandalega niður að sjó? Er eitthvað í loftinu, því sem blæs blítt um bláa vanga? Er eitthvað í öskunni sem öræfin glæðir eða hrauninu sem hrikalegt gnæfir? Er eitthvað í jöklinum, jötunsterk þrjóska? Er eitthvað í tímanum, þeim sem taktfast tifar og teygir á Frónbúans tilvist? Eða erum við manneskjan andinn sem tengir allt saman svo úr verði Ísland og íslenskt?

Ísland og íslenskt. Hugtök og átök. Hvað er Ísland og hvað er íslenskt? Er ekki Ísland öll eyjan og þær litlu sem landið umkringja? Er ekki íslenskt allt sem þar finnst og íslenskt vill vera? Átök um hugtök.

Ég trúi á Ísland og íslenskt. Ég trúi að útlönd geti meðtekið Ísland og íslenskt. Ég trúi því að öll séum við mennsk með öllu því sem mönnunum háir. Bæði æðstu og óðustu menn, mennskan háir þeim. Ég trúi því samt að við getum tekið það besta úr mannleikanum og sameinast um rökvísi og gagnrýninn anda. Að ekkert sé sjálfgefið nema það að allt er fyrir Ísland, eyjuna og skerin. Ég er íslenskur og ég er Pírati.

Höfundur skipar 13. sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.

Höf.: Leif Finnbogason