Gísli Rúnar Gíslason
Kristján H. Johannessen
„Við vitum ekki nákvæmlega hversu lengi þetta ástand mun vara, en Microsoft er t.a.m. þegar komið með leiðréttingar og hefur skilað þeim til sinna notenda í formi uppfærslu,“ segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar hjá Póst- og fjarskiptastofnun (Pfs), í samtali við Morgunblaðið. Hann bætir við að vinna að leiðréttingu sé einnig hafin innan Apple en óvíst sé með uppfærslu fyrir Android-tæki.
Vísar Þorleifur í máli sínu til þess veikleika sem nýverið uppgötvaðist í WiFi-öryggisstaðlinum WPA2 í þráðlausum nettengingum. Er áðurnefndum staðli ætlað að tryggja öfluga dulkóðun í þráðlausum netkerfum, en sökum öryggisbrests hefur almennum notendum þráðlauss búnaðar, s.s. tölva og farsíma, verið ráðlagt að forðast notkun þráðlauss nets tímabundið. Hefur fólki þess í stað verið bent á að nota farnet, 3G eða 4G, fjarskiptafélaganna í staðinn auk þess sem netöryggissveit Pfs ráðleggur tölvunotendum að tengjast netinu gegnum netkapal.
Sumir í meiri hættu en aðrir
Aðspurður segir Þorleifur fólk vera misútsett fyrir hættunni. „Það þarf einhvern með mikla þekkingu og einbeittan brotavilja til að klekkja á fólki með þessum hætti. Öll stærri fyrirtækjanet eru með aðrar varnir sem eiga að koma í veg fyrir þetta, en það eru að líkindum einna helst þeir sem eru á stærri opinberum netum, s.s. á flugstöðvum, kaffihúsum eða hótelum, sem eru í mestri hættu,“ segir hann og heldur áfram:„En svo er náttúrulega ekki hægt að horfa framhjá því að sumir einstaklingar eru meira útsettir fyrir árás á sínu heimaneti en aðrir,“ segir hann og á þar t.a.m. við ráðamenn sem óprúttnir aðilar vilja klekkja sérstaklega á eða telja sig þannig geta komist yfir viðkvæm gögn.
Þá segir Þorleifur mikilvægt að einstaklingar uppfæri hugbúnað tækja sinna til að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun vegna áðurnefnds galla og brýnir fyrir fólki að slökkva ekki á eða taka úr sambandi netbeina (e. router) á heimilum sínum.
„Það er mjög mikilvægt að samþykkja uppfærslur þegar þær koma, því að oft eru þær með öryggisuppfærslum. [...] Síðan ráðlegg ég fólki að slökkva ekki á beininum því að fjarskiptafyrirtækin koma með uppfærslur inn á beininn og þá þarf að vera kveikt á honum,“ segir hann.
Kristján Ólafur Eðvarðsson, netsérfræðingur hjá Sensa, segir framleiðendur þráðlauss búnaðar nú vera að gefa út uppfærslur sem eigi að koma í veg fyrir vandann. „Stórir framleiðendur eins og Cisco eru búnir að gefa út tilkynningu um að nú þegar sé búið að koma í veg fyrir þetta. Það er alltaf svolítið fár í kringum svona mál. Sem dæmi um það gefur öryggisviðbragðssveit Cisco alltaf út einkunn á kvarðanum 1 til 10 vegna svona mála og þessi galli fékk einkunnina 4,5,“ segir Kristján, en netöryggissérfræðingar telja afar erfitt að notfæra sér gallann.