[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Guðmundur Adolfsson fæddist í Reykjavík 18.10. 1967, en ólst upp í Ólafsvík til 16 ára aldurs. Hann var í Grunnskóla Ólafsvíkur, stundaði nám við MA, lauk þaðan stúdentsprófum 1987 og lauk cand. pharm.-prófi frá HÍ 1993.

Ólafur Guðmundur Adolfsson fæddist í Reykjavík 18.10. 1967, en ólst upp í Ólafsvík til 16 ára aldurs. Hann var í Grunnskóla Ólafsvíkur, stundaði nám við MA, lauk þaðan stúdentsprófum 1987 og lauk cand. pharm.-prófi frá HÍ 1993.

Ólafur byrjaði ungur í fiskvinnslu og vann við það í átta sumur hjá fósturafa sínum í Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur: „ Ég get ekki látið hjá líða að geta um þennan fósturafa minn, Ólaf Guðmund Kristjánsson yfirverkstjóra, en hann var seinni maður ömmu minnar, Hrefnu Sigríðar Bjarnadóttur. Ég er skírður í höfuðið á honum og hann hafði mikil og góð áhrif á mig, kynnti mig fyrir íslenska hestinum, kenndi mér að vinna og hvatti mig til að mennta mig og standa fast á mínu.“

Ólafur sinnti síðan margvíslegum störfum, t.d. í mjólkursamlagi, á rannsóknarstofu og í sútunarverksmiðju.

Eftir lyfjafræðinámið sinnti Ólafur kennslu og rannsóknum um tveggja ára skeið við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, var síðan yfirlyfjafræðingur á Akranesi og á Sauðárkróki, lyfsali í Apótekinu Iðufelli, markaðsfulltrúi og síðar sölustjóri hjá lyfjafyrirtækinu Eli Lilly á Íslandi um fimm ára skeið. Síðasta áratuginn hefur Ólafur átt og rekið Apótek Vesturlands á Akranesi og Reykjavíkur Apótek á Seljavegi í Vesturbæ Reykjavíkur.

Ólafur hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa, m.a. hjá Lyfjafræðingafélagi Íslands, knattspyrnufélagi ÍA, Félagi atvinnurekenda, í Sjálfstæðisflokknum og fyrir Akraneskaupstað.

„Ég hef alltaf haft gaman af íþróttum og fannst mest gaman að körfubolta á æsku- og unglingsárunum og spilaði m.a. með Þór á Akureyri meðan ég var í MA. Upp úr tvítugu fór ég að fá verulegan áhuga á knattspyrnu og spilaði hana í meira en áratug, fyrst með Tindastóli og síðan með seinna gullaldarliði ÍA og íslenska landsliðinu.

Ég lék með meistaraflokki ÍA 1991-96 og varð fimm sinnum Íslandsmeistari með honum og tvisvar bikarmeistari. Þetta var frábær tími og félagsskapurinn ómetanlegur.“

Ólafur er nú bæjarfulltrúi í samhentri bæjarstjórn á Akranesi og formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar.

„Ég hef haft mörg áhugamál um ævina en þar hefur orðið að forgangsraða rækilega. Í æsku var ég mikið í hestum og hef gaman af hestaferðum og hestamönnum. Ég hef gaman af allri útivist og ferðalögum, lax- og silungsveiði og veit fátt skemmtilegra en að fara á rjúpu upp til fjalla.“

Fjölskylda

Kona Ólafs er Margrét Birgisdóttir, f. 14.12. 1971, lyfsali í Reykjavíkur Apóteki. Foreldrar hennar: Birgir Vilhelmsson, f. 25.9. 1946, húsasmiður á Siglufirði, og k.h., Guðmunda Dýrfjörð, f. 20.11. 1944, verslunarkona.

Fyrri kona Ólafs er Hrafnhildur Jónsdóttir, f. 12.7. 1968, kennari.

Börn Ólafs eru: 1) Svandís Erla Ólafsdóttir, f. 22.9. 1991, nemi við Háskólann á Bifröst, en maður hennar er Eðvald Bergur Eðvaldsson og sonur hennar Egill Fannar Andrason; 2) Arnar Steinn Ólafsson, f. 19.7. 1995, nemi við HÍ; 3) Hildur Hilmarsdóttir, f. 9.10. 2001, og 4) Birgir Hilmarsson, f. 24.12. 2003.

Bróðir Ólafs er Steinar Adolfsson, f. 25.1. 1970, sviðsstjóri stjórnsýslu og fjármála hjá Akraneskaupstað.

Foreldrar Ólafs eru Adolf Steinsson, f. 1.9. 1942, lögregluvarðstjóri í Ólafsvík, og Álfheiður Erla Þórðardóttir, f. 24.5. 1946, bankastarfsmaður í Ólafsvík.