Á Boðnarmiði birtir Hólmfríður Bjartmarsdóttir þetta haustljóð, sem byrjar svo fallega en fær svo dapurlegan endi og heitir Bergmál:
Sól í austri, lýsir lyng í mónum
loga birkitré á hvítum grunni.
ber orðin hörð og bragðdaufari í munni
brakandi mosinn frosinn undir skónum.
Yfir tún og engi er hvítt að líta
úfið silfurfax á stráum ljómar.
frjósa nú allar fræhirslurnar tómar
fráteknu lömbin hélu stráin bíta.
Maður með vopnin sín á fætur fer
ferðast um skurði hálfboginn í laumi
hermannafötin hefur valið sér
miðar á fugl sem vel í blámann ber
byssan hans vekur mig í hálfum draumi.
Bergmálið hljómar illa, í eyrum mér.
Jón Atli Játvarðarson segir á Boðnarmiði að sér hafi dottið í hug „gamall fyrripartur sem Eysteinn í Skáleyjum var að leika sér með fyrir meira en 30 árum. Hann tengi ég umræðu um sauðfjárvandann í dag. Partinn þann sendi hann inn í vísnaþátt sem Stefán Jóhannesson sá um í NT, ef einhver man eftir því. Mér fannst erfitt að glíma við þann fjanda og þar sem ég var í Skáleyjum á þessum tíma notaði ég aðstöðu mína til að láta Eystein heyra það. Það er ekki nokkur leið að botna þessa endemis vitleysu.
Silfurföt með sauðakjöt
sjást í mötuneyti.
Hvernig í fjandanum botnar þú þetta sjálfur? Eysteinn svaraði:
Silfurföt með sauðakjöt
sjást í mötuneyti.
En kelling sjötug leið og löt
leggur skötu í bleyti.“
Margar skemmtilegar limrur eru eftir Eystein. Hér segir hann „harmsögu að austan“:
Ungmeyja austur í Japan
öslaði hnédjúpan krapann.
Rakst þar á Kana,
hann klóraði hana.
Þá réðst hún á dónann og drap hann.
Og þessi:
Hinn gráðugi Geirþjófur dósent
græddi víst þó nokkur prósent
er seldi hann Merði
á margföldu verði
mölétið Jónsbókarljósprent.
Það mætti segja mér að Pétur Stefánsson hlakkaði til föstudaganna:
Á eftir þegar sól er sest,
sálina fátt mun ergja.
Á föstudögum finnst mér best
að fá mér öl að bergja.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is