Frakkinn Laurent Blanc, fyrrverandi þjálfari franska knattspyrnuliðsins Paris SG, er sagður vera efstur á óskalistanum hjá bandaríska knattspyrnusambandinu að taka við þjálfun karlalandsliðsins.
Bruce Arena sagði starfi sínu lausu í síðustu viku þremur dögum eftir að bandaríska landsliðinu mistókst að vinna sér sæti í lokakeppni HM sem fram fer í Rússlandi næsta sumar. Bandaríkjamenn töpuðu fyrir Trínidad og Tóbagó í lokaumferð úrslitakeppninnar í Norður- og Mið-Ameríku.
Blanc, sem er 51 árs gamall, er á lausu en hann hefur ekki þjálfað síðan hann yfirgaf Parísarliðið í júní á síðasta ári en undir hans stjórn varð Paris SG þrisvar sinnum franskur meistari, tvisvar sinnum varð liðið bikarmeistari og vann deildabikarinn þrisvar.
Áður en Blanc, sem varð heimsmeistari með Frökkum árið 1998, tók við þjálfun Paris SG stýrði hann franska landsliðinu frá 2010-12. gummih@mbl.is