Anna G. Ólafsdóttir
Anna G. Ólafsdóttir
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Færri komust að en vildu á ráðstefnu Geðhjálpar, Börnin okkar!, sem haldin var í gær á Grand hóteli. Ráðstefnugestir voru um 400 talsins og var hætt að taka við bókunum á ráðstefnuna á föstudaginn var.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Færri komust að en vildu á ráðstefnu Geðhjálpar, Börnin okkar!, sem haldin var í gær á Grand hóteli. Ráðstefnugestir voru um 400 talsins og var hætt að taka við bókunum á ráðstefnuna á föstudaginn var. Innlendir og erlendir sérfræðingar, alls 21 og þar af fjórir erlendir, fluttu fyrirlestra á ráðstefnunni. Allir ráðstefnugestir hlýddu sameiginlega á fyrirlestra fyrir hádegið en eftir hádegið voru haldnar fjórar málstofur og fjallaði hver þeirra um málefni barna á ákveðnu aldursbili.

„Ráðstefnan snýst um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni allt frá fæðingu og til 24 ára aldurs,“ sagði Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. „Okkur finnst mikil þörf á úrbótum í þessum málaflokki. Markmiðið með ráðstefnunni er að fá heildarsýn á þá þjónustu sem er í boði og komast að því hvað gengur vel og hvað ekki eins vel. Í framhaldinu ætlum við að setja tíu verkefni á forgangslista og fara með hann til heilbrigðisráðherra.“

Forvarnir skila sér til allra

Á meðal fyrirlesara í gærmorgun var Karen Huges, sérfræðingur hjá heilsugæslu Wales og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Hún fjallaði um áhrif áfalla í æsku á geðheilsu fullorðinna og kostnað samfélagsins þess vegna. Samkvæmt greiningu voru þeir sem urðu fyrir áfalli eða áföllum í æsku, eða bjuggu við erfið uppeldisskilyrði, líklegri til að eiga við geðræna erfiðleika að etja síðar á lífsleiðinni en aðrir. Anna Gunnhildur sagði að í Wales hefði komið í ljós að forvarnir t.d. gegn vímuefnum og markviss vinna gegn heimilisofbeldi skilaði sér ekki aðeins til foreldranna heldur einnig til barnanna.

Börn veikra foreldra í hættu

Ditte Ellesgaard, doktorsnemi í læknisfræði og vísindamaður, sagði frá stórri rannsókn á högum sjö ára barna foreldra með geðrofasjúkdóma (geðhvörf og geðklofa) í Danmörku. Hún talaði við 522 börn, foreldra, kennara og fleiri. Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að um 30% barna þessara veiku foreldra stríddu við einhvers konar geðræna erfiðleika síðar á ævinni. Anna Gunnhildur sagði að í framhaldi af rannsókninni hefðu Danir ákveðið að byggja upp þjónustu til að styðja sérstaklega við þessi börn og fjölskyldur þeirra.

Í málstofunum var m.a. fjallað um aðgengi að sálfræðiþjónustu, áskoranir í skólaþjónustu, sjálfskaðahegðun unglinga og fjölgun ungra karlmanna á örorku.

Erindin tekin upp

Erindin á ráðstefnunni voru öll tekin upp og verða þau birt á heimasíðu Geðhjálpar (gedhjalp.is) á næstu dögum.