Guðný Helgadóttir fæddist á Hömrum í Reykholtsdal 16. ágúst 1924. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 5. október 2017.

Foreldrar hennar voru Helgi Sigurðsson, f. 1893, d. 1983, og Ástríður Guðrún Halldórsdóttir, f. 1901, d. 1981. Þau hófu búskap á Hömrum í Reykholtsdal, síðar í Kletti og keyptu svo jörðina Heggsstaði í Andakíl.

Systkini Guðnýjar voru Guðrún, f. 1922, d. 1983, Kristófer, f. 1926, d. 1959, og Sigurður, f. 1930, d. 2008.

Guðný giftist Gunnari Gissurarsyni prentara árið 1953. Gunnar fæddist 20. september 1917 en lést 18. janúar 2008. Dætur þeirra eru: 1) Rannveig hjúkrunarfræðingur, f. 1953. Maður hennar er Björn Hákon Jóhannesson framkvæmdastjóri, f. 1951. Sonur Rannveigar er Gunnar Már, f. 1977, og sonur hans Andrés Illugi, f. 2010. Börn Björns eru Bjarki, f. 1979, Kristín, f. 1982, og Anna, f. 1983, gift Martin Inga Sigurðssyni, f. 1982. Börn Kristínar eru Helga Sóley, f. 2005, Elísa, f. 2007, Arnar Hrafn, f. 2012, og Dagur Kári, f. 2015. Sonur Önnu er Björn, f. 2017. 2) Ásta, fjármálafulltrúi, f. 1957. Eiginmaður hennar er Guðmundur Rúnar Bragason offsetprentari, f. 1955. Synir þeirra eru Egill, f. 1981, og Snorri, f. 1983, giftur Nönnu Guðlaugardóttur, f. 1988. Dóttir Egils er Aldís María, f. 2012. 3) Kristín, bókari, f. 1960. Eiginmaður hennar er Haraldur Þorsteinn Gunnarsson, húsasmiður og stýrimaður, f. 1956. Börn þeirra eru Hrefna, f. 1980, Eyrún, f. 1985, og Gunnar Karl, f. 1994. Dætur Hrefnu eru Kolfinna, f. 2006, og Kristín Elsa, f. 2010.

Guðný ólst upp á Heggsstöðum frá sjö ára aldri og kenndi fjölskyldan sig ætíð við þann bæ. Hún ákvað ung að árum að mennta sig til að geta síðar staðið á eigin fótum. Hún var á Húsmæðraskólanum á Löngumýri veturinn 1945 til 1946. Hún fór í Kennaraskólann og lauk þaðan handavinnukennaraprófi 1947. Hún lauk einnig handavinnukennaraprófi frá Handíðaskólanum 1949. Hún stundaði nám í sérkennslufræðum við Kennaraháskólann veturinn 1979 til 1980. Hún fór á mörg námskeið í gegnum tíðina, bæði innanlands og utan, og fór í námsferðir til Danmerkur 1979 og Svíþjóðar 1980. Hún starfaði við fatasaum, bæði sjálfstætt og á saumastofum, og hélt námskeið í fatasaumi. Hún var um tíma í stjórn Handavinnukennarafélags Íslands. Guðný starfaði sem handavinnukennari við Laugarnesskólann frá 1950 til 1960, í Vogaskóla frá 1966 til 1982 og við Þjálfunarskóla ríkisins í Stjörnugróf frá 1982 þar til hún lét af störfum árið1994.

Guðný og Gunnar hófu búskap í Kópavogi en fluttu á Kleppsveg árið 1959. Árið 1978 fluttu þau í Dúfnahóla. 2006 fluttu þau í öryggisíbúð á Eir og eftir andlát Gunnars bjó Guðný þar áfram og hún sá þar að mestu leyti um sig sjálf og þar leið henni vel.

Útför Guðnýjar verður gerð í dag, 18. október 2017, frá Grafarvogskirkju og hefst athöfnin klukkan 13.

Hún móðir okkar var einstök kona. Hún var okkur góð móðir og afkomendum okkar góð amma og langamma.

Það er svo margt hægt að segja um hana mömmu. Hún ólst upp í sveit og þótti alla tíð afar vænt um dýr. Borgarfjörðurinn átti sérstakan stað í hjarta hennar og stundum kölluðum við systur Skarðsheiðina fjallið hennar mömmu.

Hún var mikil handverkskona og eftir hana liggja ótal listaverk. Hún virtist eiga jafnauðvelt með alla handavinnu, hvort sem það var að sauma, prjóna, vinna í leður, leir, knipla og svo ótalmargt fleira. Hún málaði vatnslitamyndir og málaði bæði á silki og postulín. Þegar við vorum litlar voru öll okkar föt heimaunnin, hvor sem það voru spariföt, hversdagsföt, yfirhafnir eða annað.

Mamma og pabbi voru samstiga í gegnum lífið, áttu saman hátt í sextíu ár. Þau höfðu unun af að ferðast saman. Ótalmargra ferða minnumst við þar sem farið var vítt og breitt um landið, gist í tjaldi og eldað á prímus. Á seinni árum fóru þau margar ferðir til útlanda, bæði um Evrópu og á Íslendingaslóðir í Kanada. Þau reistu sér sumarbústað þar sem þau nutu þess að rækta landið.

Mamma var ótæmandi fróðleiksbrunnur. Hún var vel að sér í málefnum líðandi stundar, las mikið alla tíð og gat þulið upp ljóðin sem hún lærði í barnaskóla. Það voru margir sem sóttu til hennar fróðleik um fyrri tíð sem annars hefði glatast.

Um það leyti sem pabbi dó hrakaði sjón hennar mikið. Þá fór hún að nýta sér frábæra hljóðbókaþjónustu Blindrafélagsins. Á þann hátt las hún oft margar bækur á viku og gat rakið fyrir manni heilu bækurnar, oft löngu eftir að hún hafði lesið þær. Þess á milli hlustaði hún á ýmsa þætti á rás 1 í Ríkisútvarpinu.

Hún hafði afar gaman af því að hitta fólk. Hún átti trygga vini sem ýmst komu eða hringdu reglulega í hana og fyrir það erum við þakklátar. Við viljum sérstaklega þakka systurbörnum pabba fyrir ómetanlega tryggð og vináttu við foreldra okkar og sú tryggð hélst við mömmu allt fram á síðustu stundu.

Mamma fylgdist vel með barnabörnum og langömmubörnum og vissi ætíð hvað var í gangi hjá þeim.

Mamma átti langt og farsælt líf, hún var gædd miklu jafnaðargeði og heimilislífið var alla tíð friðsælt og gott.

Við minnumst mömmu með þakklæti fyrir allt sem hún var okkur og munum ylja okkur við minningar sem hún skilur eftir í huga okkar.

Rannveig, Ásta og Kristín.

Tengdamóðir mín, Guðný Helgadóttir, er látin 93 ára að aldri.

Það var nokkuð óvænt þótt aldurinn gæti gefið annað til kynna. Fram á síðasta dag var hún létt á fæti og létt í sinni, ákaflega skýr og minnisgóð, svo mjög að okkur sem yngri vorum þótti nóg um hvað hún mundi hlutina miklu betur en við.

Guðný var ákaflega hlý og umhyggjusöm kona sem gaman var að tala við. Barnabörnin og barnabarnabörnin voru henni ofarlega í huga og var hún ákaflega hreykin af þeim. Og ekki að ófyrirsynju. Verandi viðhengi, sem rakst óvænt inn í fjölskylduna fyrir 15 árum, kemst ég ekki hjá að sjá og finna hversu samheldin og heil hún er og ber fyrst og fremst vitni um mannkosti þeirra hjóna Guðnýjar og Gunnars.

Þótt sjónin hjá Guðnýju væri að mestu farin lét hún það ekki aftra sér frá þátttöku í lífinu. Hún fylgdist mjög vel með. Nýtti sér tækni fyrir blinda til að lesa og hlusta á hljóðbækur. Með góðra vina aðstoð fór hún í göngutúra, var í sambandi við vini og ættingja í gegnum símaþráðinn og fékk dætur sínar til að fara með sig í verslanir. Hún naut þess að fara í ökuferðir út fyrir borgina, ekki síst í Borgarfjörðinn, sína æskubyggð.

Að loknu löngu og farsælu ævistarfi nutu hjónin elliáranna, nú síðast í góðu atlæti í Hlíðarhúsum tengdum hjúkrunarheimilinu Eir. Gunnar féll frá fyrir nokkrum árum en hann hefði orðið 100 ára nú í ár, hefði hann lifað.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til dætranna og annarra ættingja og vina Guðnýjar.

Björn H. Jóhannesson.

Elsku amma. Nú hefurðu fengið að hitta afa eftir stutt veikindi.

Ég var svo lánsöm þegar ég var yngri að fá að koma til Reykjavíkur og eyða miklum tíma hjá þér og afa þar sem þið dekruðuð við mig alla daga. Það var í raun alveg sama hvað ég bað um, alltaf sagðir þú já. Margar strætóferðir þar sem farinn var einn hringur í miðbæinn og jafnvel annar ef ég bað um. Ég var líka svo heppin að fá að fylgja þér mikið eftir í vinnuna þar sem þú kenndir handavinnu og varst einstaklega lagin í því starfi.

Árið 2004 flutti ég heim frá Brussel og fékk að búa hjá ykkur í eitt ár. Þá var ég 19 ára og það var örugglega ekki alltaf auðvelt fyrir ykkur að hafa ungling inni á heimilinu en þið sýnduð mér alltaf skilning. Ef herbergið mitt var ekki upp á sitt besta gerðir þú aldrei vesen úr því, þú lokaðir bara dyrunum og málið var leyst.

Elsku amma, minningarnar eru ótal margar og það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til ykkar afa. Að setjast við kaffiborðið og fá heitt súkkulaði og heyra allar ferðasögurnar þínar. Ég vona að í framtíðinni fái ég að vera jafn minnug og þú og ferðast eins og þú gerðir.

Ég mun sakna þín,

Eyrún.

Þegar sá deyr sem tók þátt í að móta mann sem barn, sá sem hefur verið manni kær frá frumbernsku, þá fyllist hugurinn sorg. Guðný Helgadóttir er dáin en hún mun lifa í huga mér, meðan mér endist líf og heilsa. Hannes Pétursson skáld orðar þetta svo vel:

Sá sem lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna

þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Ég syrgi Guðnýju látna því hún var vinur minn, hún hafði áhrif á mig og mótaði margt í huga mér. Í sorg minni er mér huggun í orðum Kazuo Ishiguro, verðandi Nóbelsskálds: „Dauðinn er aðeins sorglegur vegna þess að á meðan við lifum sköpum við eitthvað sem er verðmætt, sambönd, vináttu, eitthvað sem endist ekki að eilífu.“ Guðný skilur eftir sig mikil verðmæti, sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Í framandi menningu er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég nýt þess að hafa verið alin upp af mörgum kynslóðum og átt sterk tengslanet við fjölda fólks sem ól mig upp. Saman mynduðu þau mitt þorp. Guðný var hluti af mínu þorpi. Hún var konan hans frænda – Gunnars móðurbróður míns. Fyrstu átta ár ævi minnar bjuggu Rannveig amma og börnin hennar tvö í parhúsi sem systkinin reistu, ásamt mökum sínum, fyrir fjölskyldur sínar og móður. Innan veggja hússins tengdust í huga mér þrjár fjölskyldur sterkum böndum – fólkið sem stóð að Guðnýju, fólkið sem stóð að frænda og mömmu og fólkið sem stóð að pabba. Guðný var í hópi þessa fólks – sem allt hafði mótandi áhrif á mig.

Rætur Guðnýjar lágu uppi í Borgarfirði, þar sem hún ólst upp á Heggsstöðum. Systkinin tvö og pabbi voru að langfeðratali úr Austfirðingafjórðungi hinum forna, en áttu öll sterkar rætur í Borgarfirði eystra. Í því þorpi sem húsið var mér var gestkvæmt – þangað komu vinir og frændgarður íbúa hússins, fólk ofan úr Borgarfirði og austan úr Borgarfirði. Þetta var fólk á öllum aldri, fætt allt frá seinni hluta 19. aldar og fram yfir miðja síðustu öld.

Foreldrar Guðnýjar, Helgi og Ásta, voru í þessum hópi, svo og systkini hennar öll. Guðný var minnug með afbrigðum allt fram á síðustu stundu og sagði skemmtilega frá. Margt skondið og skemmtilegt úr æsku minni er ljóslifandi í huga mér vegna þess hve lifandi frásagnir hennar voru. Þær voru oft af atburðum úr hversdagslífinu, af litlum atburðum sem saman mynda eina heild, frásagnir sem skapa í huga mér skemmtilegar myndir.

Nú eru orðin kaflaskil í lífi þeirra systra; Rannveigar, Ástu og Kristínar. Ég veit að sorg þeirra er mikil og votta þeim og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Halldór Árnason.

Í lok janúar í ár sat ég í stofunni hjá nöfnu minni í Hlíðarhúsum. Spjaldtölvan mín var á borðinu. Ég hafði hlaðið upptökubúnaði í hana. Tækið var sett í gang og Guðný byrjaði að segja frá lífinu í Reykholtsdal. Með styrkri rödd sagði hún með ótrúlegri nákvæmni frá ýmsum atburðum á Kjalvararstöðum og Kletti í kringum 1930. Hugurinn var skarpur og minnið ótrúlegt. Með skipulagðri frásögn brá hún upp lifandi myndum af lífinu. Meðal annars sagði hún frá fermingardegi föður míns í Reykholtskirkju vorið 1930, en hann var móðurbróðir hennar. Hann var 15 ára en hún bara níu ára. Hún brá upp hverri myndinni af annarri frá þessum atburði og lýsti fólkinu og aðstæðum. Þetta geymdi hún allt í huganum. Nú skyldi byrjað að skrásetja þann mikla fróðleik sem Guðný bjó yfir. Því miður varð hlé á þessu hjá mér og nú er of seint að taka upp þráðinn. Guðný var öll hinn 27. september sl.

Sjónin brást Guðnýju fyrir mörgum árum en það hamlaði henni ekki frá að halda heimili og fylgjast vel með. Lengi vel las hún blöðin í lestæki og alltaf hlustaði hún mikið á útvarp. Og hún var mjög dyggur viðskiptavinur Hljóðbókasafnsins. Hún var alltaf búin að „lesa“ nýjustu bækurnar langt á undan okkur hinum og þar var ekki komið að tómum kofunum.

Það var alla tíð gott samband á milli Guðnýjar og Gunnars og foreldra minna. Lengi var það siður að þau ásamt Ástrúnu systurdóttur pabba og manni hennar Aðalsteini komu í síðdegiskaffi á nýársdag. Þá var brugðið upp svipmyndum úr lífinu í Reykholtsdal. Guðný hélt alltaf mikla tryggð við móður mína eftir fráfall föður míns og var natin að heimsækja hana síðustu árin í Skjól þrátt fyrir sjónleysið.

Það var alltaf hressandi og fróðlegt að eiga samneyti við Guðnýju. Hún var góð heim að sækja og fá í heimsókn. Stundirnar hefðu mátt vera miklu fleiri.

Við systur, Sigrún, Þorbjörg, Áslaug og ég, vottum Rannveigu, Ástu og Kristínu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning Guðnýjar.

Guðný Helgadóttir.