Ríkisútvarpið sekkur sífellt dýpra

Það er að vonum að ýmsar spurningar vakni vegna bombu sem sprengd var til að hafa á síðustu stundu áhrif á úrslit kosninga. Ríkisútvarpið hefur sér til afsökunar „fjölmiðil“ sem vart rís undir slíku heiti og því síður að teljast gild „heimild“. Dæmi um slíkar spurningar eru þær sem Páll Vilhjálmsson blaðamaður varpar fram: „Tíu ára gömul gögn úr þrotabúi Glitnis dúkka upp í fjölmiðlum. Enginn fjölmiðill fjallar um lekann eða veltir fyrir sér hver standi að baki. Eftir að fréttir birtast og eru til umfjöllunar í heila viku kemur fram lögbannskrafa frá þrotabúi Glitnis.

Lögbannskrafan er tímasett þannig að hún valdi Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum hámarksskaða. Hvers vegna var beðið í heila viku? Var það til að undirbúa jarðveginn, leyfa slúðrinu að grassera?

Gögnin frá Glitni eru sögð varða þúsundir Íslendinga. Hvers vegna eru Stundin/Reykjavík Media ekki krafin um svör um hvort þetta sé rétt? Hvers vegna upplýsa fjölmiðlar ekki efnisatriðin og beina gagnrýnum spurningum til þeirra sem um véla?

Eða eru fjölmiðlar fyrst og fremst að hugsa um að taka þátt í pólitík?“ Þetta eru lögmætar spurningar og brennandi.

Ein athugasemda Páls er sérlega athyglisverð: „Enginn fjölmiðill fjallar um lekann eða veltir fyrir sér hver standi að baki.“ Eru allir búnir að gleyma því hvernig látið var þegar „lekið“ var upplýsingum um vafasaman mann sem stór hópur stóð opinberlega þétt með og krafðist að fengi sérstaka og óvenjulega fyrirgreiðslu. Samviskulega hafði þrýstihópurinn þagað yfir því hvaða mann „umsækjandinn“ hafði að geyma. Þegar „ábyrgir aðilar“ svífast einskis við að spila á tilfinningar almennings er beinlínis skylt að fulltrúar þess sama almennings upplýsi hann um hina réttu mynd.

Víða í löndum „sem við berum okkur saman við“ eru reglur sem kveða á um slíkt. En í þessu tilviki var það ekki gert, því miður. Hinum sjálfsögðu upplýsingum var lekið. Og þá gerðist það skrítna. Ríkissaksóknari setti allt á annan endann. Umboðsmaður Alþingis stóðst ekki fjölmiðladans og fjörkálfa netsins og skellti sér með, þótt málið væri þegar í umfangsmikilli rannsókn. Blaðamenn og ritstjóri Morgunblaðsins voru kallaðir til yfirheyrslu, þótt það hefði því miður ekki verið fyrst með fréttina! En þá vaknar spurningin: Hvar voru allir riddarar málfrelsisins þá? Þeir sáu um undirspilið fyrir ríkissaksóknara og umboðsmanninn! Þeir sömu sem nú nota hina nýuppgötvuðu „leyndarhyggju“ um flest mál til að leyna því hve fátt þeir hafa fram að færa, voru týndir þá. Og hvar er saksóknarinn núna? Er embætti hans orðið hreint dynta- og duttlungaembætti?

Björn Bjarnason, fv. dómsmálaráðherra, varpar fram athyglisverðum ábendingum og spurningum í pistli sínum. Í því samhengi vitnar hann til frétta Morgunblaðsins (17. október) þar sem rætt er við Ingólf Hauksson, framkvæmdastjóra Glitnis HoldCo. Ingólfur segir að „upplýsingarnar í Stundinni séu „klárlega úr kerfum Glitnis fyrir hrun þannig að við óttumst að þarna séu upplýsingar um fjölda viðskiptamanna og það er nú aðalástæðan fyrir þessari lögbannsbeiðni“. Þá segir í Morgunblaðinu: „Spurður um hvort lögbannið sé eitthvað tengt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, vísar Ingólfur því til föðurhúsanna. „Já, ég vísa því til föðurhúsanna. Auðvitað er þetta sett upp þannig af Stundar-mönnum. Þarna er fyrst og fremst gögnum stolið eða gögnum lekið með einhverjum hætti og auðvitað beinast spjót að okkur sem störfum þarna og við viljum líka hreinsa okkar mannorð í leiðinni.“

Það blasir því við að upplýsingaþjófarnir hafa gögn um þúsundir manna en velta sér aðeins upp úr einu nafni til að reyna að afbaka yfirstandandi kosningar.

Og Ríkisútvarpið tekur fullan þátt í leiknum eins og gegn öðrum forsætsráðherra fyrir rúmu ári og viti menn, þá einmitt í samstarfi við sömu kumpána og núna. Þetta ástand getur vart ömurlegra verið.