ORG – Ættfræðiþjónustan í Skerjafirði er að dreifa landnámskortum til Íslendingafélaga og menningarstofnana í ýmsum löndum. Kortin sýna á táknrænan hátt hvernig Ísland var numið.
Pétur Gunnar Thorsteinsson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum, kom við hjá Oddi F. Helgasyni æviskrárritara á dögunum til að taka við landnámskortum sem eiga að fara í Norræna húsið í Þórshöfn og ræðismannsskrifstofuna. Í Noregi eiga kort að fara í þjóðskjalasafnið og til Íslendingafélagsins og í Jónshús og Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn.
Slík kort eru komin til Íslendingafélaga í Curitiba í Brasilíu og í Ástralíu.
Oddur segir að samband verði haft við sendiherra ýmissa þjóða hér á landi til að kynna þeim menningarstarfið hjá ORG og bjóða þeim landnámskortin fyrir helstu söfn sinna þjóða.