Alþingi þarf að skipa nýtt kjararáð. Samkvæmt lögum nr. 47/2006 skipar Alþingi þrjá ráðsmenn, fjármálaráðherra einn og Hæstiréttur annan. Þessu þarf að breyta, því mikill meirihluti ráðsmanna skipaður af Alþingi getur ekki látið þetta kjararáð ákveða eigin laun!
Nýtt kjararáð úrskurði um lækkun launa og fríðinda alþingismanna og æðstu embættismanna frá og með úrskurðardegi.
Gleymum ekki hækkuninni sem kjararáð veitti daginn eftir síðustu kosningar til alþingismanna. Launin hækkuðu í árslok um 45%, í krónum talið 400 til 500 þúsund á mánuði. Hugsa sér svívirðuna, að mikill meirihluti ráðsins, skipaður af alþingismönnum, láti hækka sín eigin laun og æðstu embættismanna í kjölfarið og einnig marga mánuði afturvirkt! Og engu hægt að breyta sögðu þáverandi þingmenn!
Verði þetta ekki gert bíður okkar efnahagsleg kollsteypa í hækkun launa til allra starfsstétta, í samræmi við úrskurðinn, verðbólga, og í kjölfarið hækkun skulda heimilanna.
Verður ef til vill birtur nýr úrskurður núna frá kjararáði daginn eftir kosningar um hækkun launa alþingismanna?
Verðtryggingin og verðbólga
Verðtryggingu á neytendalánum verður að leggja af, þau þekkjast nánast hvergi í heiminum annars staðar. Hún leysir eigendur fjármagns algerlega undan ábyrgð, en varpar henni alfarið á þá sem skulda. Með þessari breytingu gæti meira jafnvægi komist á, jafnframt því að verðbólga yrði mæld án húsnæðis- og leigukostnaðar, sem hefði leitt af sér lækkun skulda heimilanna marga undanfarna mánuði.Verðtrygging var upphaflega sett á allar skuldir og öll laun. Tveimur árum síðar var verðtrygging launa aflögð.
Frítekjumarkið
Frítekjumark, sem var lækkað úr 109 þús. á mánuði í 25 þús. á mánuði um síðustu áramót, verði aflagt, þannig að fólk, sem fær greiðslur frá TR, megi vinna sér inn viðbótartekjur, sem það greiðir skatt af, án þess að vera skert um 73% af greiðslum frá TR, þegar það vinnur til tekna umfram þessar 25 þús. á mánuði eins og nú er.
Greiðslur lífeyrissjóða til TR
Afnema verður greiðslu lífeyrissjóða til TR, sem nema um 30 milljörðum á ári í dag. Áunninn lífeyri með lögbundnum skyldusparnaði á ríkissjóður ekki að innkalla til sín. Íslenska ríkið greiðir samkvæmt OECD-samantekt 2013 minnst allra aðildarríkja til eftirlaunaþega, eða 1,93% af þjóðartekjum. Ef bætt er við þessu „ólöglega“ framlagi lífeyrissjóðanna til TR er Ísland í 8. neðsta sæti.
Inngreiðslur í lífeyrissjóðina verði skattlagðar
Lífeyrissjóðskerfinu verður að breyta, þannig að þeir verði gegnumstreymissjóðir, eins og í öðrum löndum. Skoða verður sameiningu 28 sjóða vegna óskiljanlegs rekstrar- og fjárfestingakostnaðar, sem nemur um 17 milljörðum á ári. Einnig vegna taps á misheppnuðum fjárfestingum allt til dagsins í dag að ógleymdu tapi í hruninu um 600 milljarða – að eigin sögn.Almennu lífeyrissjóðirnir þurftu margir að skerða verulega réttindi sjóðfélaga sinna, en einn lífeyrissjóður var þó þar undanskilinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem er ríkistryggður. Ríkið skuldar honum um sex hundruð milljarða króna, sem öll þjóðin þarf líklega að greiða, einnig þeir lífeyrisþegar sem urðu fyrir réttindaskerðingu vegna veru í öðrum lífeyrissjóðum.
Inngreiðslur verði skattlagðar. Inngreiðsla skattsins er áætluð á þessu ári um 80 milljarðar og útgreiðsla um 40 milljarðar. Munurinn, um 40 milljarðar, færi til sveitarfélaga og ríkissjóðs við lögfestingu þessarar breytingar.
Til athugunar væri að mynda einn sjóð, A- og B-deild, þar sem inngreiðslur fram að breytingu væru með hlutfallslegri ábyrgð B-deildar, en þeir sem hæfu greiðslu í nýjan sjóð, A-deild, ættu sjálfir helming inngreiðslu um 7% sem séreign til ákvörðunar um hvar þeir fjárfestu og gætu tekið út 67 ára eða eftir slys eða veikindi, sem skertu lífsafkomu, en 7% rynnu til tryggingar sameiginlegri ábyrgð sjóðsins.
Flokkur fólksins vill breytingar
Flokkurinn er nýtt stjórnmálaafl með fimm áhersluatriði á stefnuskrá sinni, sem hann svíkur ekki. Auk þess hefur flokkurinn sett fram skýra málefnaskrá sem hægt er að kynna sér á flokkurfolksins.is ásamt með áhersluatriðunum.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í NA-kjördæmi.