Mark Akureyringar fagna einu af átta mörkum sínum í Laugardalnum í gær.
Mark Akureyringar fagna einu af átta mörkum sínum í Laugardalnum í gær. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Kristófer Kristjánsson sport@mbl.is SA Víkingar unnu Íslandsmeistara Esju í hádramatískum, framlengdum leik í Laugardalnum í Hertz-deild karla í íshokkí í gærkvöldi.

Í Laugardal

Kristófer Kristjánsson

sport@mbl.is

SA Víkingar unnu Íslandsmeistara Esju í hádramatískum, framlengdum leik í Laugardalnum í Hertz-deild karla í íshokkí í gærkvöldi. Liðin skiptust á að taka forystuna í leik sem var æsispennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Fyrir heimamenn í Esju skoraði Jan Semoraad tvö mörk og þeir Aron Knútsson, Egill Þormóðsson, Robbie Sigurðsson, Daniel Kolar og Petr Kobos allir eitt hver um sig. Fyrir Akureyringa skoraði spilandi aðalþjálfari þeirra, Jussi Sipponen, þrjú mörk, Sigurður Sigurðsson tvö og svo voru þeir Bart Moran, Andri Mikaelsson og Ingvar Jónsson allir með eitt.

Liðin skiptust á að vera yfir í háspennuleik en gestirnir virtust þó vera með öll stigin þrjú í hendi sér þegar Petr Kubos skoraði ótrúlegt jöfnunarmark af ca. 50 metra færi þegar aðeins ein sekúnda var eftir á klukkunni. Það þurfti því að grípa til framlengingar þar sem landsliðsmaðurinn Ingvar Jónsson skoraði úrslitamarkið og tryggði norðanmönnum tvö stig sem styrkja stöðu þeirra á toppi deildarinnar. Esjumenn hafa farið heldur verr af stað og sitja í þriðja sæti með 10 stig en þeir fengu eitt stig upp úr krafsinu í gærkvöldi.

Hinn ungi og efnilegi Jakob Jóhannesson, markvörður SA, gerðist sekur um slæm mistök þegar hann leyfði Kubos að skora þetta ótrúlega jöfnunarmark en hann lét það þó ekki hafa áhrif á sig og varði nokkrum sinnum vel í framlengingunni til að hjálpa liðinu sínu að bera sigur úr býtum að lokum.

Jussi Sipponen, spilandi aðalþjálfari SA, var frábær í leiknum og er einn markahæsti leikmaður deildarinnar en hann var líka duglegur að halda sjálfum sér inni á vellinum og spilaði nær alla framlenginguna til að tryggja liði sínu sigur að lokum.