Arion banki og Íslandsbanki spá því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% milli mánaða í október, sem samsvarar hækkun ársverðbólgu úr 1,4% í 1,7%. Landsbankinn spáir ögn minni hækkun, eða 0,2%, sem jafngildir 1,6% ársverðbólgu. Allir bankarnir segja að helstu ástæðu hækkunar megi rekja til húsnæðisverðs, en einnig spili inn í flugfargjöld, matur, húsaleiga og póstur og sími.
Til viðbótar ofangreindu nefnir Íslandsbanki þætti eins og bifreiðaverð, eldsneytisverð og lyf og læknisþjónustu sem allt vegi til hækkunar verðbólgunnar í október. „Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa heldur batnað frá síðustu spá, þar sem áhrif af aukinni samkeppni halda aftur af verðbólguþrýstingi næstu mánuði. Er nú útlit fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár, en verði síðan að jafnaði 2,7% næstu tvö ár,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Húsaleiga hækkar lítið
Það sem helst hefur haft áhrif á verðbólguna að mati Landsbankans er reiknuð húsaleiga sem hækkað hefur að meðaltali um 1,6% milli mánaða. „Útfrá könnun okkar á verðsjá fasteigna gerum við ráðfyrir að þessi liður muni einungis hækka um 0,2% milli mánaða nú. Fara þarf aftur til mars 2016 til að sjá minni hækkun milli mánaða,“ segir í verðbólguspá Hagsjár Landsbankans. tobj@mbl.is