Síldarvertíð Börkur kom til Neskaupstaðar í gær með 1.200 tonn.
Síldarvertíð Börkur kom til Neskaupstaðar í gær með 1.200 tonn. — Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
Búið er að veiða um 47 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld á vertíðinni, samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Þá eru óveidd um 54 þúsund tonn, en ágætlega hefur veiðst síðustu daga.

Búið er að veiða um 47 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld á vertíðinni, samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Þá eru óveidd um 54 þúsund tonn, en ágætlega hefur veiðst síðustu daga. Skipin hafa ýmist verið að veiðum í íslenskri lögsögu djúpt austur af landinu eða í Síldarsmugunni. Tvö skip hafa verið á kolmunnaveiðum í íslenskri lögsögu, Guðrún Þorkelsdóttir SU og Bjarni Ólafsson AK.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með um 1.200 tonn af síld. Síldin verður öll unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir í samtali við heimasíðu fyrirtækisins að veiðiferðin hafi gengið vel.

„Við fengum aflann í fimm holum austur undir miðlínu á milli Færeyja og Íslands, um 140 mílur austur af Norðfirði. Aflinn var 200 tonn í fyrstu þremur holunum, 400 tonn í því fjórða og 200 tonn í því fimmta en þá var einungis dregið í 25 mínútur. Það virtist vera síld á stóru svæði þegar við komum þarna og í gær mátti sjá stóra síldarflekki sem gáfu vel. Síldin er feit og flott og afar góð í alla staði,“ sagði Hjörvar. aij@mbl.is