[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

„Við gerum ekki athugasemdir við það ef bankarnir myndu lækka eiginfjárhlutfall sitt í varfærnum skrefum,“ segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Morgunblaðið. „Fjármálaeftirlitið myndi hins vegar ekki heimila bönkunum að greiða arð í það miklum mæli að eiginfjárhlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 færi í 16%,“ segir hann og nefnir að 18% væri nærri lagi að teknu tilliti til stjórnendaauka bankanna sjálfra (e. planning buffer).

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að samkvæmt greiningu Danske Bank eru íslensku bankarnir með mun ríflegra eigið fé en þekkist annars staðar á Norðurlöndum.

Eiginfjárhlutfall fjármálastofnana, sem kallað hefur verið „almennt eigið fé þáttar 1“ (e. Common Equity Tier 1), var um 23% að meðaltali hjá íslensku bönkunum í lok annars ársfjórðungs, en er um 16% að meðaltali hjá sambærilegum bönkum annars staðar á Norðurlöndum.

Viðskiptabankarnir gætu því greitt allt að 240 milljarða króna í arð í því skyni að eiginfjárhlutfall þeirra yrði með svipuðu sniði og þekkist annars staðar á Norðurlöndum, samkvæmt útreikningum Morgunblaðsins.

Lágmarkskrafan um 16%

„Lágmarkskrafa um almennt eigið fé er nálægt 16% í tilfelli stóru viðskiptabankanna. Hins vegar hlyti að teljast óvarlegt ef þeir gerðu áætlanir um að lækka eiginfjárhlutfallið að því marki. Eðlilegt er að bankar miði við að standast eiginfjárkröfur að teknu tilliti til óvissu í rekstri og hafi því borð fyrir báru í fjármagnsskipan sinni. Algengt er að slíkur stjórnendaauki sé á bilinu 1,5 til 3 prósentustig. Af þeim sökum væri eðlilegra að miða við að umrætt hlutfall fari ekki undir 18%. Miðað við það gætu bankarnir greitt hluthöfum hátt í 200 milljarða króna í arð á næstu árum. Þetta varúðarsjónarmið er vörn gegn því að eiginfjárhlutfallið verði of lágt ef á móti blæs í rekstrinum,“ segir Jón Þór.

Arður Arion til ríkisins

Ríkissjóður á Íslandsbanka og Landsbankann og fær því arðgreiðslur þeirra að fullu. Jón Þór bendir á að ríkissjóður eigi einungis um 13% hlut í Arion en eigi engu að síður tilkall til stórs hlutar af mögulegri arðgreiðslu bankans eða um 70% vegna ákvæðis í stöðugleikaframlagi. Tilkallið nær til 71% hlutafjár. Vogunarsjóðir og Goldman Sachs keyptu 29% hlut í Arion fyrr á árinu. Sá hluti er undanþeginn arðgreiðslunni því þeir hafa þegar innt af hendi stöðugleikaframlag til ríkisins.

Að sögn Jóns Þórs verður að gæta að ýmsu við útgreiðslu arðs frá bönkunum. Lausafjárreglur hafa áhrif á hve hratt bankanir geta greitt arð. Reglur um stórar áhættuskuldbindingar geta einnig haft áhrif. Loks þyrftu bankarnir að ráðast í verulega útgáfu á víkjandi skuldabréfum, sem teljast gjaldgeng í eiginfjárgrunni. Innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja skiptir hér einnig miklu máli, því samkvæmt tilskipuninni eru skilgreindar frekari kröfur um tiltækt fjármagn sem breyta má í eigið fé, lendi fjármálafyrirtæki í alvarlegum erfiðleikum (MREL). Útfærslu á þessum kröfum hér á landi er enn ólokið og gæti haft áhrif á möguleika banka til arðgreiðslna og útgáfu víkjandi skuldabréfa.

Tífalda umfangið

Eins og sakir standa er hver og einn banki með útistandandi um 3-4 milljarða af víkjandi lánum. Ef þeir hygðust minnka almennt eigið fé eins og kostur er þyrftu þeir að gefa út um það bil 40 milljarða hver. Það yrði um tíföldun á umfanginu. Ólíklegt er að það sé gerlegt í hröðum skrefum.