Á Nesinu
Kristín María Þorsteinsdóttir
kristinmaria@mbl.is
Stjarnan vann öruggan 10 marka útisigur á Gróttu þegar liðin mættust í 5. umferð Olís-deildar kvenna í gærkvöldi, 25:35. Leikurinn var líflegur og voru ríkjandi deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar með tveggja og þriggja marka forystu framan af, en gáfu í og voru með sjö marka forystu í hálfleik, 10:17. Stjarnan stakk af í síðari hálfleik, en Þórhildur Gunnarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna, Stefanía Theodórsdóttir sex og Rakel Dögg Bragadóttir bætti við fimm mörkum.
„Okkar leikur var ekkert rosalega góður, mér fannst við vera lengi í gang og tókum lélegar ákvarðanir í sókn sem gerði það að verkum að við fengum á okkur svolítið af mörkum úr hraðaupphlaupum, en Grótta er sterk í því. Þegar leið á leikinn sýndum við að við erum með betra lið í dag og unnum þetta sannfærandi,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari liðsins.
Dröfn Haraldsdóttir átti stórleik í marki Stjörnunnar og varði 16 skot.
„Dröfn var mjög góð í markinu og átti stórleik. Vörnin gaf aðeins eftir í lokin sem gerði það að verkum að hún var ekki með þá prósentu sem hún hafði vonast eftir. Hún var virkilega góð og það er gott að sjá að hún er tilbúin. Mér fannst við að vísu ekki alveg komast í gang en ég er sáttur með tvö stig og 10 marka sigur, það er fyrir öllu, sagði Halldór að lokum.
Slavica Mrkikj var markahæst hjá Gróttu með sjö mörk, en Þóra Guðný Arnarsdóttir var næst með fimm mörk.
Gott að nýta hornin
„Það voru að sjálfsögðu kostir og gallar í okkar leik, þær náðu að loka mjög vel inn á miðjuna hjá okkur, en á meðan við fáum mörk úr horninu þá er það auðvitað gott, við erum með mjög góða hornamenn,“ sagði Þóra Guðný, en Emma Havin Sardarsdóttir var með fjögur mörk úr horninu.Hin unga og bráðefnilega Lovísa Thompson var fjarri góðu gamni, en Gróttukonan meiddist gegn ÍBV í síðustu umferð.
„Í leiknum á móti ÍBV stökk ég upp í skoti og lenti illa og sneri ökklann á mér þegar ég lenti á hælnum á varnarmanni,“ sagði Lovísa en hún segir tognunina vera nokkuð slæma og óvíst hvenær hún mun leika með liðinu.
Lovísa vonast til að geta verið með í næsta leik Gróttu gegn Fjölni á sunnudag, en óvíst er að það takist. Hún segist þó finna mun á hverjum degi.
Valur vann 22 marka sigur
Valskonur eru í góðum málum á toppi deildarinnar eftir að hafa skellt Fjölni með 22 marka mun, 36:14. Staðan í hálfleik var 18:7.Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir skoraði níu mörk og var markahæst hjá Val en níu leikmenn liðsins skiptu mörkunum á milli sín. Hjá Fjölni var Ólöf Ásta Arnþórsdóttir markahæst með fjögur mörk.
Valur verður í toppsætinu að minnsta kosti þar til annað kvöld en ÍBV gæti náð því aftur með því að vinna Íslandsmeistara Fram í Safamýri. Fjölniskonur eru með Gróttu á botni deildarinnar en hvort lið hefur eitt stig.