Baldur Arnarson baldura@mbl.is Þriðja skattþrepið skilaði 4,93 milljörðum króna í fyrra. Það samsvaraði 3% af greiddum tekjuskatti, sem var alls 160,6 milljarðar króna. Þetta má lesa úr greiningu Ríkisskattstjóra sem unnin var að beiðni Morgunblaðsins.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þriðja skattþrepið skilaði 4,93 milljörðum króna í fyrra. Það samsvaraði 3% af greiddum tekjuskatti, sem var alls 160,6 milljarðar króna.

Þetta má lesa úr greiningu Ríkisskattstjóra sem unnin var að beiðni Morgunblaðsins. Horft var til tímabilsins 2009 til 2016. Til upprifjunar var lagður á einskonar hátekjuskattur árið 2009. Hann var 32,1% á tekjur umfram 700 þúsund á mánuði á tímabilinu frá júlí til desember 2009, alls 4,2 milljónir á tímabilinu.

Miðaðist við rúmar 4 milljónir

Fyrsta skattþrepið skilaði 150,3 milljörðum í fyrra, að frádregnum persónuafslætti. Þaðan kom 93,6% tekjuskattsins. Næsta skattþrep, svonefnt milliþrep, miðaðist við tekjur umfram 4,032 milljónir. Með því hækkaði tekjuskatturinn úr 22,68% í 23,90%.

Milliþrepið skilaði 5,362 milljörðum króna en það var afnumið um síðustu áramót. Hlutfall milliþrepsins í samanlögðum tekjuskatti var 3,3%. Þriðja skattþrepið miðaðist við tekjur umfram 10,044 milljónir. Það skilaði sem áður segir 4,93 milljörðum, eða 3% af heildinni.

Tekjuskattur hefur tekið nokkrum breytingum frá 2009. Fyrsta þrepið var 24,1% árið 2009 en lækkaði síðan í tveimur skrefum í 22,68% í fyrra. Milliþrepið varð einnig hæst árið 2010, eða 27%, og sömuleiðis þriðja þrepið, sem var 33% árið 2010. Bæði þrepin voru síðan lækkuð. Einstaklingum sem greiða tekjuskatt fjölgaði verulega á tímabilinu 2009 til 2016, eða úr 157.345 í 199.697, sem er 26,9% aukning.

Fylgir hagsveiflunni

Páll Kolbeins, sérfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, bendir á að tekjuskatturinn sé næmur fyrir hagsveiflunni. Eftir því sem laun hækki þeim mun fleiri greiði laun í hærri þrepum.

Seinni áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga tók gildi í byrjun þessa árs þegar miðþrep tekjuskatts féll út. Jafnframt lækkaði neðsta skattþrepið úr 22,68% í 22,5% en efsta þrepið var óbreytt, 31,8%. Þrepamörk milli neðra og efra þreps lækkuðu úr 836.990 kr. í 834.707 kr.

Síðari talan samsvarar 10,016 milljónum króna í árstekjur.

Fyrri áfangi tók gildi í ársbyrjun 2016 þegar skatthlutföll neðsta þreps og milliþreps voru lækkuð.