Myndband Þórarinn og Narri á vinstra stökki. Fimm gangtegundir íslenska hestsins eru sýndar í kynningunni.
Myndband Þórarinn og Narri á vinstra stökki. Fimm gangtegundir íslenska hestsins eru sýndar í kynningunni.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Myndband sem kynnir gangtegundir íslenska hestsins hefur slegið í gegn á Facebook.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Myndband sem kynnir gangtegundir íslenska hestsins hefur slegið í gegn á Facebook. Um miðjan dag í gær höfðu um 600 þúsund manns um allan heim skoðað myndbandið á sex dögum, tæplega 10 þúsund manns líkað við það, því hafði verið deilt 6.400 sinnum og rúmlega 2 þúsund skrifað athugasemdir.

„Það er gaman að finna þennan mikla áhuga,“ segir Þórdís Anna Gylfadóttir, verkefnastjóri markaðsverkefnisins Horses of Iceland sem fékk Skottu Film til að taka upp myndina. Þórarinn Eymundsson tamningamaður sýnir gangtegundir íslenska hestsins á stóðhestinum Narra frá Vestri-Leirárgörðum. Umhverfið er skagfirsk náttúra, hjá Bakka í Viðvíkursveit.

Forvitið um gangtegundirnar

„Þetta er gott efni og einfalt þannig að fólk áttar sig á mun gangtegundanna. Fólk um allan heim er forvitið um séríslensku gangtegundirnar, tölt og skeið,“ segir Þórdís Anna um myndbandið.

Horses of Iceland er samstarfsverkefni ríkisins og fjölda aðila í Íslandshestamennskunni og unnið af Íslandsstofu. Tilgangurinn er að kynna og segja frá íslenska hestinum um allan heim. Þórdís segir að komið hafi verið á samstarfi við Íslandshestafélög og ræktendur í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi og stefnt er á samstarf við enn fleiri.