FH mætir Tatran Presov í 3. umferð EHF-keppninnar í handknattleik ef kærumálið fellur þeim í hag en sem kunnugt er kærði St. Pétursborg til evrópska handknattleikssambandsins, EHF, framkvæmd leiksins við FH þegar liðin áttust við í síðari leiknum í 2. umferðinni í Rússlandi um síðustu helgi.
FH skilaði greinargerð til evrópska handknattleikssambandsins um málið í gær og það verður til lykta leitt í dag.
Tatran Presov er ríkjandi meistari í Slóvakíu og hefur hampað meistaratitlinum þar í landi tólf sinnum og tíu ár í röð. Þá vann liðið bikarkeppnina í fyrra í 20. sinn.
Füchse Berlín, lið Bjarka Más Elíssonar, sem komst í úrslit í EHF-keppninni á síðustu leiktíð, mætir portúgalska liðinu Porto og Vignir Svavarsson og samherjar hans í danska liðinu Tvis Holstebro drógust gegn Azoty-Pulawy frá Póllandi. gummih@mbl.is