Viðtal
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Ég hef verið pólitískur frá unglingsárum,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um ástæður þess að hann fór út í stjórnmálin. Logi segir hins vegar að hann hafi lítið skipt sér af þeim eftir menntaskólaárin, þar sem hann fór utan í nám í arkitektúr og var síðan arkitekt í fullu starfi.
Hrunið haustið 2008 ýtti hins vegar á Loga. „Þá hafði ég val milli þess að mótmæla niðri á torgi eða reyna að hafa áhrif innan þess flokks sem stóð mér næst, og í mínu tilfelli var það auðvelt val, Samfylkingin.“
Hrunið setti Loga í erfiða stöðu, en hann og fjölskyldan voru nýbúin að reisa sér hús, auk þess sem hann rak fyrirtæki. „Allt blessaðist þetta að lokum, en þetta var mikið högg. Við seldum húsið og fyrirtækið tók fimm til sex ár að ná aftur góðri stöðu.“ Logi segir að þessi reynsla hafi fengið sig til að hugsa vandlega um það hvernig samfélagið ætti að vera. „Ég hafði mína sýn á það sem ég deili með sósíaldemókrötum.“
Logi fór því í prófkjör 2009 og varð varaþingmaður Samfylkingarinnar kjörtímabilið 2009-2013, og var einnig í bæjarmálunum á Akureyri frá 2010 til 2016, fyrstu tvö árin sem varafulltrúi. Hann fór svo aftur í framboð til þings síðasta haust og varð að formanni flokksins í kjölfar þeirra. Logi segist varla hafa fengið tíma til að velta fyrir sér síðasta ári og þeim skjóta frama sem hann fékk. „Satt að segja gerðist þetta svo hratt og auðvitað með óvæntum hætti, að ég hef aldrei velt því fyrir mér hvernig mér leið þegar ég varð formaður. Ég hélt að við fengjum tveggja til þriggja ára rúm til þess að ná vopnum okkar, en þá bresta þessar kosningar á, þannig að í augnablikinu er ég að einbeita mér að því að ná sem bestum árangri í þeim.“
Öruggt og innihaldsríkt líf
Logi segir að í haust verði kosið um almenn lífskjör almennings. „Þá er ég ekki eingöngu að tala um launin sem þú færð um hver mánaðamót, heldur er ég að tala um þann félagslega stöðugleika sem þarf að vera til staðar svo að fólk geti lifað öruggu og innihaldsríku lífi, eða svo að minnstu áföll setji ekki allt á annan endann í heimilisbókhaldinu.“Logi segir að þar sé innifalið opinbert heilbrigðiskerfi, heilbrigður húsnæðismarkaður og skólakerfi sem mæti þörfum hvers og eins. „Og síðan erum við auðvitað að tala um þessa grunnþætti sem gera lífið byggilegt út um allt land, eins og samgöngur, raforkuflutninga og nettengingu.“
Logi segir það í raun hlutverk ríkisins að sjá um þessa þætti. „Hið norræna líkan byggist á þremur stoðum. Í fyrsta lagi á kjarasamningum milli atvinnurekenda og ríkis annars vegar og launþega hins vegar, í öðru lagi á stöðugri efnahagsstjórn og í þriðja lagi á þessum félagslega stöðugleika. Í augnablikinu er sú stoð of veik á Íslandi og þarf að byggja betur undir hana.“
Þá skipti einnig heilmiklu máli að útrýma fátækt á Íslandi. „Við erum of ríkt og lítið land til þess að geta unað því að hér séu meira en 6.000 börn sem líði skort.“
Kraftmestu samfélög sögunnar
Því er ekki að leyna að Samfylkingunni hefur ekki vegnað vel í síðustu tvennum þingkosningunum, en hún er langt í frá eini sósíaldemókrataflokkurinn í Evrópu sem hefur goldið afhroð á síðustu misserum. Logi segir að kannski hafi sósíaldemókrataflokkarnir orðið að fórnarlömbum eigin velgengni. „Þessir flokkar hafa lagt mest af mörkum til að byggja upp kraftmestu og eftirsóknarverðustu samfélög veraldarsögunnar í Norður-Evrópu og á Norðurlöndum. Það hefur leitt til algerrar breytingar á samfélaginu og kannski hafa flokkarnir ekki tekið nógu alvarlega það verkefni sitt að endurnýja erindi sitt og þróa stefnuna í takt við breytt samfélag,“ segir Logi.Hann segir það klárlega vera verkefni Samfylkingarinnar líka. „Flokkur sem gengur í gegnum það sem við fengum að reyna, þarf af mikilli auðmýkt að horfa inn á við og kjarna stefnu sína betur, gera málflutninginn skýrari og samhliða þessu þarf hann að opna sig og kalla á vettvang nýtt fólk, sem er sannfærðir og trúverðugir boðberar jafnaðarstefnunnar, og það hef ég verið að reyna síðasta árið. En jafnframt höldum við til haga og byggjum á góðum verkum okkar forvera,“ segir Logi.
Hann bendir á að jafnaðarmenn á Íslandi hafi staðið í fararbroddi í mörgum af helstu réttarbótum almennings á Íslandi. „Við getum nefnt vökulögin, verkamannabústaðina, lög um jöfn laun kvenna og karla, Lánasjóð íslenskra námsmanna og svo auðvitað aukin samskipti Íslands við erlend ríki og aukið viðskiptafrelsi, sem hefur gagnast almenningi mjög vel.“
Mannúð og mannréttindi
Logi segir að áherslur Samfylkingarinnar yrðu skýrar í stjórnarmyndunarviðræðum. „Við viljum mynda stjórn um aukinn jöfnuð og réttlæti, þar sem höfuðáhersla verður á þennan félagslega stöðugleika. Við munum ekki ganga til samstarfs við aðra flokka en þá sem leggja mikla áherslu á mannúð og mannréttindi.Síðast en ekki síst,“ segir Logi, „eru svo gríðarlegar breytingar á samfélagi okkar handan hornsins með tæknibyltingunni að við þurfum að hefja stórsókn í menntamálum þar sem lögð verður áhersla á fulla fjármögnun þeirra, auk þess að meiri kraftur verði settur í rannsóknir og nýsköpun. Þá þarf að búa til umhverfi í menntamálunum sem styrkir eiginleika eins og skapandi hugsun.“
Spurður um hið óstöðuga ástand sem íslensk stjórnmál búi nú við segir Logi mikilvægt að ræða þær ástæður sem hafi leitt til þess að kosið verði á ný í haust. „Heilbrigt heimilislíf byggist á gildum eins og virðingu, heiðarleika og trausti. Nú hafa tvær ríkisstjórnir fallið á einu ári vegna skorts á þessum grundvallargildum.“
Hann bætir við að samfélag okkar byggist þrátt fyrir allt að langmestu leyti á óskráðum grundvallargildum um siðferði. „Ef við komum okkur ekki saman um þau gildi sem leikreglur í stjórnmálum, þá mun traust á Alþingi eða stjórnvöldum ekki fara vaxandi.“ Hann segir að hugmyndir um nýja stjórnarskrá séu birtingarmynd ákalls þjóðarinnar um bætt siðferði í stjórnmálunum. Hann segir að fyrir sér eigi í slíkri vinnu að leggja til grundvallar tillögur stjórnlagaráðs eins og þær lágu fyrir þegar ferlið steytti á skeri vorið 2013.
Hann segir að tal um efnahagslegan stöðugleika sé lítils virði fyrir þá sem minnst hafa í samfélaginu. „Þó að vísitölur og meðaltöl sýni einhverja mynd, þá þýðir lítið að tala um stöðugleika við fólk sem hrekst um á ótryggum húsnæðismarkaði, hefur ekki efni á að leysa út lyfin sín eða senda börnin sín í tómstundir, og við minnsta áfall er heimilisbókhaldið í rúst,“ segir Logi og minnir á það hvert hlutverk jafnaðarstefnunnar sé: „Kjarninn í stefnu okkar er að við viljum ekki að það sé braskað með fæði, húsnæði, heilbrigði og menntun fólksins í landinu.“