Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að almenn bifreiðastæði við Kjarvalsstaði verði eftirleiðis eingöngu ætluð fólksbílum. Þetta var gert að fengnum tillögum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
Merkingar settar upp
Auglýsing varðandi málið hefur verið send til birtingar í Stjórnartíðindum, samkvæmt bréfi lögreglunnar til Reykjavíkurborgar 6. október. Þess má vænta að á næstunni verði settar upp merkingar um breytta notkun bílastæðisins, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.Umgengni framan við listasafnið Kjarvalsstaði hefur þótt ábótavant undanfarið. Nágrannar safnsins hafa m.a. kvartað á Facebook og sýnt myndir af ýmsu sem þykir til óprýði við aðkomuna að safninu. Sumt af því er þar tímabundið vegna framkvæmda sem standa yfir á Klambratúni á bak við safnið.
Auk þess hafa safnast á bílastæðið framan við Kjarvalsstaði söluvagnar sem þykja ekki fegra staðinn auk þess að taka dýrmætt pláss. Nú verður ekki lengur leyft að leggja þeim í bílastæðin, sem hafa verið til almennra nota, og því verður að fjarlægja þá.
Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sagði að farið hefði að bera á því að bílastæðin við Kjarvalsstaði og Klambratún væru notuð sem langtímastæði fyrir atvinnutæki. Þessi þróun hefði verið óásættanleg í ljósi aukinnar aðsóknar að Kjarvalsstöðum og garðinum á Klambratúni.
Borgarar sem telji safnið bera ábyrgð á svæðinu hafi kvartað yfir þessari þróun. Þess vegna hafi Listasafnið óskað eftir því í vor að bílastæðið við safnið yrði skilgreint sem skammtímastæði fyrir fólksbíla.