[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer, er í öðru sæti yfir markahæstu leikmenn í þýsku B-deildinni í handknattleik. Arnór Þór hefur skorað 73 mörk, þremur mörkum færri en Savvas Savvas, leikmaður Hildesheim.

*Landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer, er í öðru sæti yfir markahæstu leikmenn í þýsku B-deildinni í handknattleik. Arnór Þór hefur skorað 73 mörk, þremur mörkum færri en Savvas Savvas, leikmaður Hildesheim. Mörkin 73 hefur Arnór skorað í níu leikjum sem þýðir að hann hefur skorað 8,1 mark að meðaltali en Bergischer er í toppsæti deildarinnar, hefur unnið alla níu leiki sína. Liðið féll úr A-deildinni á síðustu leiktíð.

* Vigfús Arnar Jósepsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks Leiknis.

Vigfús mun taka við starfi aðstoðarþjálfara Leiknis fyrir komandi tímabil og mun hann starfa við hlið Kristófers Sigurgeirssonar, þjálfara Leiknis. Vigfús lék á sínum tíma 174 leiki fyrir Leikni og skoraði í þeim 15 mörk en hann lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2014. Leiknismenn höfnuðu í 5. sæti í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð og þá komust þeir í undanúrslit í bikarkeppninni þar sem þeir töpuðu naumlega fyrir FH-ingum í Kaplakrika, 1:0.

* Tiger Woods hefur fengið leyfi frá læknum til að slá golfboltann af fullum krafti. Umboðsmaður hans, Mark Steinberg, staðfesti þetta á ESPN og lét þess getið að Woods ætlaði að vera þolinmóður í þetta skipti og fara varlega í sakirnar. Woods fór síðast í aðgerð vegna bakmeiðsla í apríl en alls eru bakaðgerðirnar orðnar fjórar á síðustu þremur árum. Af þeim sökum þykir óvíst að hann geti aftur orðið keppnismaður í íþróttinni af fullum krafti en Woods er 41 árs gamall. Hann keppti síðast í febrúar á þessu ári en mótin sem hann hefur tekið þátt í eru þó fá á allra síðustu árum. Woods er næstsigursælasti kylfingur sögunnar og sigraði fjórtán sinnum á risamótunum.