Bjarni Pálsson, fv. skólastjóri Núpsskóla í Dýrafirði og framhaldsskólakennari í Garðabæ, fæddist í Reykjavík 18. júlí 1936. Hann lést 3. október 2017.
Bjarni var sonur Önnu Árnadóttur húsmóður frá Stóra-Hrauni, f. 26. júlí 1901, d. 29. febrúar 1996, og Páls Geirs Þorbergssonar, verkstjóra, frá Syðri Hraundal, f. 29. júní 1894, d. 17. maí 1979. Systkini hans eru Anna María Elísabet, húsmóðir, f. 8. september 1925, d. 19. október 1974, og Árni, fv. sóknarprestur í Kópavogi, f. 9. júní 1927, d. 16. september 2016.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hlaut síðar kennsluréttindi sem framhaldsskólakennari. Framan af sinnti hann ýmsum störfum, meðal annars hjá bílaleigunni Fal í Reykjavík, við kennslu í Neskaupstað og við Gagnfræðaskólann við Lindargötu.
Bjarni var kennari og síðar skólastjóri Núpsskóla í Dýrafirði frá 1960-1961 og 1968-1981. Hann var kennari við Fjölbrautaskóla Garðabæjar frá stofnun skólans, þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2001. Bjarni sinnti einnig bókhaldsvinnu og ráðgjöf fyrir ýmsa aðila allt til dánardags.
Samhliða kennslustörfum sinnti Bjarni ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn SÁÁ allt frá stofnun samtakanna til æviloka. Bjarni var alla tíð virkur í stjórnmálum og var í framboði til Alþingis bæði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþýðuflokkinn. Hann skrifaði ritstjórnargreinar fyrir Alþýðublaðið um tíma og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Bjarni var mikill áhugamaður um flug og á árum sínum vestur á fjörðum lauk hann flugprófi og skemmti vinum og ættingjum með útsýnisflugferðum.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Valborg Þorleifsdóttir, f. 31. október 1938, fv. kennari og lífeindafræðingur. Valborg er dóttir Þorleifs Jónssonar, lengst af búsetts í Hafnarfirði, síðar sveitarstjóra á Eskifirði, f. 16. nóvember 1896, d. 29. september 1983 og Hrefnu Eggertsdóttur húsmóður, f. 15. júní 1906, d. 20. mars 1965.
Börn þeirra hjóna Bjarna og Valborgar eru: 1) Þorleifur, deildarstjóri hjá Advania, f. 24. október 1963, eiginkona hans er Hildur Ómarsdóttir, yfirþroskaþjálfi hjá Kópavogsbæ, f. 11. ágúst 1970. Þeirra synir eru Bjarni, f. 23. september 1997, og Ómar Þór, f. 8. júlí 2000. 2) Hrefna, tölvunarfræðingur, f. 14. júlí 1965, eiginmaður hennar er Bjarni Birgisson, tölvunarfræðingur, f. 9. desember 1964. Þeirra börn eru Daði, verkfræðingur, f. 28. febrúar 1987, Andri, tölvunarfræðingur, f. 6. mars 1993, og Nanna Kristín, f. 27. ágúst 2002. 3) Anna, leikskólastjóri í Garðabæ, f. 24. mars 1971, sambýlismaður hennar er Jón Emil Magnússon sviðsstjóri, f. 15. september 1964. Börn Önnu og fv. eiginmanns, Hlyns Hreinssonar, f. 4. janúar 1969, eru Huldar, f. 31. maí 1998, Hrefna, f. 28. mars 2001, og Hreiðar Örn, f. 16. mars 2005. 4) Páll Geir, dagskrárstjóri hjá SÁÁ, f. 31. júlí 1972. Dóttir hans og fv. eiginkonu, Rachelle Nicole Wilder, f. 21. september 1980, er Valborg Leah, f. 1. maí 2009.
Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 18. október 2017, klukkan 13.
Elsku pabbi. Ég á enn erfitt með að átta mig á að þú sért farinn. Þú sem varst alltaf svo líflegur, kröftugur og fullur af fjöri. Alltaf gamansamur og stutt í fíflaganginn. Þú varst okkur öllum stoð og stytta, alltaf tilbúinn að leysa hvers manns vanda. Ég var alveg viss um að þú yrðir að minnsta kosti hundrað ára. En veikindin komu og við þau verður ekki alltaf ráðið. Mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín. Hún Valborg Leah mín á líka eftir að sakna afa síns. Hún spyr um þig og segir að þú sért orðinn engill. Hún elskar þig mjög mikið og vissi að þið mynduð laumast saman í súkkulaðirúsínur þegar hún kom í heimsókn.
Þú varst mér meira en faðir, þú varst mér góður vinur og ráðgjafi í lífsins ólgusjó. Mér líkaði kannski ekki alltaf ráðin sem ég fékk og fór ekki alltaf eftir þeim, en ég virti þau alltaf mikils og innst inni vissi ég að þú hafðir yfirleitt rétt fyrir þér. Þú varst svo snjall á svo mörgum sviðum. Ég var svo sannarlega ekki alltaf þægur og hlýðinn í uppvextinum og ekki barnanna rólegastur. Ég veit það vel. En svo hef ég líka oft heyrt að við höfum verið mjög líkir feðgarnir, í útliti og hegðun. Mér finnst það ekki leiðum að líkjast og er stoltur af því. Þess vegna veit ég líka að þú skildir mig eflaust manna best.
Við Valborg Leah kveðjum þig með sorg í hjarta og vitum að líf okkar verður fátæklegra núna þegar þú ert farinn. Hvíldu í friði, elsku pabbi.
Páll Geir Bjarnason,
Valborg Leah Pálsdóttir.
Anna Bjarnadóttir.
Ég fékk gefin góð spil með því að eiga Bjarna Pálsson að föður. Það var gott að alast upp undir handleiðslu hans og móður minnar.
Ég fékk að kynnast ótalmörgum skemmtilegum hlutum í samvistum við hann. Fjölbreyttu mannlífi, bæði í gegn um vini hans, og ekki síður samrýndri og skemmtilegri ætt hans sem ég er stoltur af að tilheyra.
Pabbi minn kenndi mér margt á þeirri rúmu hálfu öld sem við áttum samleið. Hann hjálpaði mér að öðlast menntun, og var fyrirmynd í samskiptum við náungann.
Hann kenndi mér að líta fordómalaust á mína samferðamenn. Hann kenndi mér líka að stundum þurfa menn stuðning í lífinu, og það má ekki snúa baki í menn þótt þeir fari grýttan veg, heldur hjálpa þeim að rata.
Hann studdi mig með ráðum og dáð í öllum þeim störfum sem ég tók mér fyrir hendur. Hann hvatti mig til að víkka sjóndeildarhringinn með heimsóknum til fjarlægra landa.
Hann studdi mig í öllum framkvæmdum sem ég tók mér fyrir hendur, til að mynda að byggja þak yfir höfuðið. Þar naut ég góðs af reynslu hans og hugrekki til framkvæmda.
Pabbi minn var mér ávallt náma af góðum ráðum, hvort sem vandamálin voru andleg eða veraldleg.
Hann var blíður og skilningsríkur ef ég var svartsýnn og leiður, og hann var skarpur og úrræðagóður ef um veraldleg málefni var að ræða.
Allt mitt líf hefur hann verið minn helsti ráðgjafi og þakka ég honum margar af mínum bestu ákvörðunum í lífinu.
Reynslubanki minn væri mun fátækari ef ég hefði ekki átt svona litríkan og skemmtilegan föður. Ég kveð hann nú með söknuð í hjarta, glaður yfir að hann gerði mig að sjálfbjarga manni sem getur staðið á eigin fótum.
Ég er óendanlega glaður fyrir alla þá aðstoð og ráðgjöf sem hann veitti mér í sínu lífi.
Takk fyrir mig, elsku pabbi, og við hittumst aftur í eilífðinni.
Þorleifur Bjarnason.
Bjarni kom inn í líf okkar beggja snemma á lífsleiðinn og þau Valborg eru samofin í minningunni svo ekki verður sundurskilið. Eldurinn sem kviknaði á milli þeirra í byrjun brann glatt og fölskvaðist aldrei. Þegar við vorum enn í menntaskóla treystu þau okkur fyrir heimilinu sínu í Hraunbænum á meðan þau brugðu sér af bæ í fáeina daga. Það var upphaf okkar heimilishalds. Kærastan fór út í fiskbúð til að kaupa uppáhaldsmat kærastans, gellur. Spurð hve mikið hún vildi fá sagði bæjarstúlkan, svona eins og þrjár. Ertu með kanarífugl? spurði fisksalinn glaðlega og uppskar hlátur. Hún svaraði engu og fór heim og setti upp soðninguna. Það var ein gella í afgang þegar staðið var upp frá borðum. Þessu kemur ástin til leiðar og þannig geta fáeinir fiskar og nokkur smábrauð mettað þúsundirnar eins og dæmin sanna. Þegar við síðan stóðum á eigin fótum og hófum búskap með tvær hendur tómar, bæði í námi og með lítið stúlkubarn, færðu Bjarni og Vallý okkur að gjöf uppþvottavél, Candy hét hún. Bleyjurnar voru handþvegnar á þessum dögum en borðbúnaður fyrir tvo settur í hraðvirka uppþvottavél af nýjustu gerð. Svona gera bara örlátir höfðingjar.
Bjarni var hörkugreindur, fylgdist vel með og ávarpsorðið var oftar en ekki: „Segðu mér eitthvað í fréttunum.“ Hann var mikill sagnameistari og frásagnirnar, sem voru yljaðar hlýrri kímni, voru aldrei meinlegar eða á annarra kostnað. Það eru ekki margir sem vita að Bjarni var óþreytandi að leggja öðrum lið. Og gerði það af mikill gleði. Hann sá um úrlausn mála hjá fjölmörgum, var málsvari þeirra sem áttu erfitt með að rata um völundarhús kerfisins, alltaf boðinn og búinn ef hann var beðinn um eitthvað. Og sá til þess að enginn væri hlunnfarinn. Mikill jafnaðarmaður.
Að vegferðarlokum, sem komu allt of fljótt eins og gerist raunar í öllum góðum ferðum, er okkur efst í huga þakklætið fyrir að hafa átt samleið með Bjarna Pálssyni. Hann auðgaði líf okkar á svo marga lund og tilveran er að nokkru horfin litum að honum gengnum. Hugur okkar er hjá Vallý, sem svo mikið hefur misst, börnum þeirra og fjölskyldum. Megi gleðin sem gafst búa áfram í hjörtum okkar allra sem söknum hans sárt. Guð blessi minninguna um góðan dreng.
Sigfinnur og Bjarnheiður.
Bjarni var með afbrigðum skemmtilegur maður, með ríka frásagnargáfu og afburða skopskyn, sem svo ríkulega hefur fylgt afkomendum þess merka klerks Árna Þórarinssonar, en Bjarni var dóttursonur hans.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að leigja herbergi í kjallaranum að Mánagötu 16 fyrsta háskólaárið mitt, veturinn 1966-1967. Það hús, sem var tvær hæðir og kjallari, áttu foreldrar Bjarna, Anna Árnadóttir og Páll G. Þorbergsson. Þau bjuggu á efri hæðinni en Bjarni og Valborg á neðri hæðinni.
Þetta var sannarlega skemmtilegur tími og gaman að hlusta á skemmtilegar og vel kryddaðar frásagnir þeirra mæðgina, Önnu og Bjarna.
Árið 1968 fluttu Bjarni og Valborg vestur á Núp í Dýrafirði, þar sem þau dvöldu fram til ársins 1981. Þau kenndu þar bæði og síðar varð Bjarni skólastjóri um langt árabil. Ávallt var gaman að koma vestur á Núp og njóta gestrisni Bjarna og Valborgar. Bjarni var frábær ræðumaður og fór ávallt á kostum í ræðustól, enda kallaði Matthías Bjarnason ráðherra Bjarna skemmtikraftinn frá Núpi á framboðsfundum þegar Bjarni var í framboði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna á Vestfjörðum.
Eftir að Bjarni og Valborg fluttu suður árið 1981 gerðist Bjarni stærðfræðikennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og starfaði þar til starfsloka. Samtímis sá Bjarni um bókhald og framtöl smáfyrirtækja og einstaklinga. Þar var hann afkastamikill og sparaði mörgum mikla peninga.
Tvennt viljum við sérstaklega minnast á og þakka fyrir. Ég og Sigga heitin eiginkona mín fórum í hálfs mánaðar ferðalag um Evrópu með Bjarna og Valborgu árið 1986. Þá nutum við vel frásagnarsnilldar Bjarna. Síðastliðið haust buðu svo systkini mín okkur Bjarna í óvissuferð, en þá höfðum við nýlega átt stórafmæli, ég 70 ára afmæli og Bjarni 80 ára afmæli. Óvissuferðin var tveggja daga ferð um Mýrar og Snæfellsnes þar sem farið var á slóð föðurfólks Bjarna á Mýrum, en þar var hann nokkur sumur í sveit og á slóð móðurfólks hans á sunnanverðu Sæfellsnesi þar sem sr. Árni Þórarinsson sat sem prestur.
Þessi ferð var stórkostleg og úr henni geymum við fallegar og ljúfar minningar um góðan dreng. Bjarni bjó alla tíð við góða heilsu, allt fram á þetta ár að heilsu hans hrakaði hratt. Það er sárt að horfa á eftir Bjarna. Hann var í alla staði vandaður öðlingur, mikill fjölskyldumaður og sannur vinur. Bjarni og Valborg hafa alla tíð verið miklir höfðingjar heim að sækja, bæði á heimili þeirra hér á höfuðborgarsvæðinu og svo forðum vestur á Núpi. Þau hafa verið með eindæmum samhent hjón og ræktað ættar- og vinatengslin af kostgæfni.
Við fráfall Bjarna er stórt skarð höggvið í fjölskylduna og söknuðurinn er sár. Fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með Bjarna erum við þakklát, þær ljúfu minningar munu lifa með okkur .
Elsku Vallý, Þorleifur, Hrefna, Anna, Páll og fjölskyldur. Megi algóður Guð gefa ykkur styrk, og minningin um þennan ljúfa og góða dreng bregða birtu á þungbæra sorg ykkar.
Blessuð sé minning Bjarna Pálssonar.
mbl.is/minningar
Kristófer Þorleifsson
Guðríður Þorleifsdóttir.
Bjarni var einhvern veginn þannig að hann átti að verða gamall, alla vega í okkar huga.
Fyrir ári kvöddum við bróður hans séra Árna og höfðu margir á orði þann daginn hversu vel Bjarni liti út og það væri eins og þau hjónin Bjarni og Valborg yngdust bara með hverju ári.
Allt í einu erum við systkinin að verða elsta kynslóðin í fjölskyldunni og er það pínu sjokkerandi líka.
Við tvö systkinin af þremur vorum á Núpi í Dýrafirði meðan Bjarni var þar kennari og bjuggum á heimilinu hjá þeim hjónum, hvort sitt árið þó. Líklega hefur það átt að vera betrumbótardvöl fyrir okkur að fara á Núp og næsta víst að góða siði lærðum við en líka allt hitt sem við höfðum ekki náð að tileinka okkur eins og gengur og gerist á heimavistarskólum. Dvölin á Núpi skilur eftir sig að mestu góðar minningar.
Við bárum óttablandna virðingu fyrir honum og er ástæðan örugglega sú að Bjarni var ákveðinn og gat verið mjög hvatvís og stríðinn. Bæði fengum við að kenna á því að hann vippaði okkur upp á öxlina og hljóp með okkur inn á strákavistina (en einar dyr skildu að íbúðina þeirra og eina strákavistina) og setti okkur niður á hinum enda gangsins á vistinni. Bjarni kallaði á strákana og bað þá að koma fram. Síðan bauð hann Rakel upp sem álitlegan kost og eitthvað álíka gerði hann við Palla. Öllum fannst þetta voða fyndið nema okkur.
Bjarni var mikill sögumaður og húmoristi og var húmorinn eins og skjöldur yfir persónu hans. Okkur finnst eins og við höfum ekki kynnst persónu hans mjög náið.
Bjarni var vinsæll ræðumaður og á fjölskylduuppákomum var það alltaf tilhlökkunarefni að hlusta á hann flytja ræður því það var næsta víst að hann hitti ávallt í mark með orðum sínum og alltaf mikið hlegið. Hann vildi vel og bauð ávallt fram aðstoð sína við bókfærslu, skattskýrslugerð og fleira.
Það má segja að nú sé stórt skarð höggvið í fjölskylduna okkar og með honum eru öll börn Önnu og Páls farin. Víst er það eðli lífsins að koma og fara og ekki allir sem fá að lifa í 80 ár. Önnur kynslóð tekur við og heldur vafalaust uppi góðri minningu um okkar kæra Bjarna.
Við sendum Bjarna blessun og þakklæti og sendum Valborgu, börnum og barnabörnum, fjölskyldu og vinum samúðarkveðju.
Rakel Ólöf Bergsdóttir, Páll Þór Bergsson og Anna Gyða Bergsdóttir.
Bjarni var kennari alla tíð. Hann var svo laginn stærðfræðikennari að honum tókst jafnvel að laða fram stærðfræðigáfu þar sem hennar hafði aldrei áður orðið vart. Þess fengu ófá ættmenni í öngstræti próflesturs að njóta. Og ekki bara það: Þegar ég hóf að reka mitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur áratugum kenndi hann mér undirstöðuatriði bókhalds og hjálpaði mér svo þaðan í frá við að stemma af og klára ársreikningagerð og skattskil. Hann vildi kenna manni nógu mikið til að maður yrði sjálfbjarga og hafði engan áhuga á að gera sjálfan sig að ómissandi millilið. Ég mun alltaf minnast þessara unaðsstunda fyrir framan tölvuna þegar við ræddum jöfnum höndum skattalagabreytingar, pólitík og réttar framtalsaðferðir. Það voru unaðsstundir.
Samfylgd mín með Bjarna var líka pólitísk. Hann varð ungur jafnaðarmaður, starfaði með Samtökum frjálslyndra og vinstri manna fyrir vestan og Alþýðuflokknum og Samfylkingunni síðar. Hann bjó í kjördæmi mínu alla mína pólitísku tíð og var mér ráðgjafi og vinur. Hann hafði tröllatrú á því að flest samfélagsleg úrlausnarefni væri hægt að leysa með sameiginlegu átaki og því að gefa fólki tækifæri og styðja það til sjálfsbjargar. Keppinautar hans í pólitíkinni fyrir vestan í gamla daga óttuðust hann öðrum fremur því á framboðsfundum dró hann þá sundur og saman í háði, svo hlegið var og klappað þannig að undir tók í þéttsetnum félagsheimilunum. Hann hafði sama hátt á fundum hér syðra og gerði engan mannamun. Hann hafði rótgróna vantrú á öllu valdi, krafðist rökræðu og beitti kímninni óspart til að afbyggja orðskrúð og rökleysu. Ég man ófáar ræður og tilsvör þar sem einhver sjálfskipaður handhafi sannleikans endaði með allt niðurumsig eftir samræður við Bjarna.
Samfylgd Bjarna og Valborgar var löng og farsæl og þau fylgdust að í öllu. Á milli þeirra var fallegt samband og djúp virðing og þau voru stolt af börnunum fjórum og stórum afkomendahóp. Ég á þess því miður ekki kost að fylgja mínum kæra föðurbróður síðasta spölinn vegna skyldustarfa erlendis, en kveð með þakklæti og bið Valborgu og frændsystkinum mínum og fjölskyldum þeirra blessunar. Guð blessi minn góða frænda.
Árni Páll Árnason.
Bjarni óx upp í Norðurmýrinni og í æsku var hann flest sumur á Svarfhóli í Hraunhreppi hjá föðursystur sinni Málfríði, hennar manni Guðjóni og syni þeirra Bjarna Valtý. Unun var að heyra þá frændurna ræða „gamla tíma“ og rifja upp spaugileg atvik frá þessum árum. Nú hafa þeir allir þrír frændurnir, Bjarni Valtýr, pabbi og Bjarni Páls kvatt á aðeins tveimur árum.
Þeir þóttu líkir bræðurnir, pabbi og Bjarni. Bjarna voru þakkaðar stólræður sr. Árna í Kópavoginum á meðan fólk undraðist að pabbi væri farinn að bera út kosningapésa fyrir Alþýðuflokkinn. Í fyrsta sinn sem beðið var um persónuskilríki á kjörstað mætti Bjarni snemma, til að kjósa sína krata og seildist eftir ökuskírteininu. „Nei, þetta er óþarfi, þig þekkja nú allir, séra Árni,“ sagði sú sem á móti honum tók. „Ég var að hugsa um að kjósa fyrir Árna bróður, því ég veit hann hefur ekki alltaf kosið rétt,“ sagði Bjarni, „en ég kunni ekki við það ef honum yrði síðan vísað frá seinna um daginn.“ Pabba leiddist ekki að vera líkt við Bjarna, því Bjarni var 9 árum yngri. Það kom því á óvart hve stutt varð á milli bræðranna, en pabbi dó fyrir ári. Bjarni var ætíð kvikur á fæti og snar í snúningum en hrakaði mjög snögglega frá því í vor.
Bjarni hlaut í vöggugjöf frábært skopskyn, glettni og hispursleysi sem hann þroskaði með sér. Vissulega tók hann um tíma hraða spretti á lífsins svelli en náði tökum á sínum málum og var síðan drjúgur liðsmaður í vaskri sveit SÁÁ-fólks.
Bjarni var okkur bestur þegar hann í gleði sinni nálgaðist okkur sem jafningja, ætíð með jákvæðum huga og einlægan áhuga á okkur og okkar málum. Hans ævistarf var kennsla og uppeldi. Ég veit að þar nálgaðist hann einmitt nemendur sína á þennan sama hátt og laðaði fram það besta í þeim.
Ég votta Valborgu og krökkunum og fjölskyldum þeirra samúð. Megi minningin lifa um góðan dreng.
Ennþá geng ég
götuna mína
af gömlum vana.
Hversu langt
veit ég ekki að sinni.
Gatan mín
og gatan allra hinna
á undan mér.
Þeir fornu kappar
frægir á horfnum öldum
áttu hér sinn leik.
Og leikinn áttu með þeim
hraðgengir jóar
hverra hófar
mörkuðu sér leið,
eftirlétu okkur
sporin sín
svo við gætum
endurtekið
ferð kynslóðanna
um sumarlandið ljúfa.
Já ferðin heldur áfram
að vonum.
Áningunni lokið
og eilífðin geymir
hin mörkuðu spor.
(Bjarni Valtýr Guðjónsson)
Þórólfur Árnason.
Tilfinningar okkar vegna fráfalls hans eru bæði þakklæti og sorg. Þakklæti yfir því að hafa kynnst góðum manni sem ávallt framkallaði það besta í hverjum þeim sem hann umgekkst og sorg yfir því að fá ekki að njóta hans lengur.
Við áttum margar skemmtilegar samverustundir með þeim hjónum bæði heima og erlendis.
Samvera okkar í Flórída gerði okkur að mjög góðum vinum þar sem við vorum saman sex eða sjö vikur ár hvert í mörg ár. Við nutum þar margra ógleymanlegra stunda s.s. þegar Bjarni þeyttist inn um dyrnar og sagði „er eitthvað að frétta“ og svo settist hann og við spjölluðum um allt milli himins og jarðar m.a. pólitíkina sem við deildum sömu skoðunum á. Við fórum á margar tónlistar- og dansskemmtanir og einnig í siglingar. Einnig fórum við í vikuferð til Tallinn, sem var frábær ferð. Þetta voru allt mjög skemmtilegar samverustundir með þeim hjónum og þau voru full af fróðleik sem þau leyfðu okkur að njóta með sér og við það bættist hans einstaki og skemmtilegi húmor sem einkenndi hann alla tíð.
Bjarni var mjög greiðvikinn og var boðinn og búinn að hjálpa öllum sem til hans leituðu.
Við viljum þakka Bjarna vini okkar fyrir yndislegar og eftirminnilegar stundir um leið og við óskum honum velfarnaðar á nýjum slóðum – hittumst þegar tími okkar er kominn. Hans kveðja til okkar var alltaf: „Jæja, farið þá varlega.“
Elsku Valborg, okkar innilegustu samúðarkveðjur til þín, barnanna og þeirra fjölskyldna.
Brynjólfur og Jóhanna (Binni og Jóhanna).
Þeir sem guðirnir elska
deyja ungir.
Barnið í þeim lifði
og ellin fór hjá.
Bjarni Pálsson var afar kær heimilisvinur og félagi okkar hjóna. Hann var aldinn að árum þegar hann féll frá. Við sem höfðum við hann samneyti upplifðum hann þó ekki sem aldraðan mann.
Hann var gamansamur og einstaklega orðheppinn og sá alla jafna aðra fleti á hverju máli en þá sem almennt blöstu við. Oft mjög spaugilega. Því var hann oftast rosalega skemmtilegur maður. Hann hafði sansa æskunnar. Þannig lifði hann og dó ungur.
Bjarni var kennari í Reykjavík og mörg ár skólastjóri á Núpi. Eftir Núp kenndi hann stærðfræði í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Nemendur þar kusu hann oft vinsælasta kennarann. Sú staðreynd er ósvikin eftirmæli.
Eitt af mörgu sem einkenndi Bjarna Pálsson umfram annað fólk var fádæma óeigingjörn hjálpsemi.
Þegar hann varð áttræður gáfum við hjónin honum bók og létum fylgja henni eftirfarandi texta: „Áttræður er í dag Bjarni Pálsson, fyrrum farmaður um heimsins höf. Uppalandi og skólastjóri og tilsjónarmaður með fjárreiðum og skyldum einstaklinga, félaga og fyrirtækja. Þannig hefur hann tíðum bægt vandræðum frá þeim sem honum var annt um.“
Algengt var að Bjarni eyddi mörgum stundum á dag til að reka alls konar erindi fyrir annað fólk. Hann stóð í bréfaskriftum og viðtölum við útlendingastofnun til að hjálpa nýbúum sem áttu enga að. Hann hjálpaði fjölda eldri og yngri vina sinna að reka erindi sín í bönkum og öðrum stofnunum, skrifaði fyrir þá bréf og fór með þeim í viðtöl.
Þá er ótalinn fjöldi áfengissjúklinga sem voru og eru að vinna að því að ná tökum á lífi sínu. Oftar en ekki eru þeir með vanefndar margra ára skyldur sínar við samfélagið og stofnanir þess. Fyrir fjölda ára var ég einn þeirra mörgu sem Bjarni tók undir sinn verndarvæng. Það tók mig rúm fjögur ár að ljúka og standa að fullu skil á mínum skuldum við samfélagið. Þá skiptu ráð og hjálp Bjarna sköpum. Þau fjölmörgu, sem nutu hjálpar hans, geta aldrei fullþakkað. Reyndar held ég að hann hafi ekki ætlast til neins þakklætis fyrir hjálpina, – honum var hún svo eðlislæg.
Trúlega þykir lítil rökvísi í því að segja að Bjarni Pálsson hafi verið öldungur, sem ellin missti af. En mér finnst það nú samt.
Aðstandendur Bjarna þekkja hug okkar hjóna til þeirra á þessari stundu.
Birgir Dýrfjörð.
Bjarni sótti okkar málstað með frábærri rökvísi og þekkingu á lögum og reglum. Allt saman kryddað hans ísmeygilega húmor og ýmsum smásögum. Eftir síðasta bréfið sem var sent beint til fjármálaráðherra unnum við, en þó aðallega Bjarni, fullnaðarsigur.
Mér finnst þessi snerra lýsa Bjarna vel – einlægur áhugi á að vinna sínu samfélagi vel, endalaus dugnaður og ósérhlífni í alls kyns verkefnum fyrir hreyfingu okkar jafnaðarmanna, hvort sem er hér í Kópavogi eða víðar, og alltaf stutt í húmorinn og gleðina.
Ég kann ekki að telja öll þau verk sem Bjarni tók að sér á okkar vettvangi og annars staðar, allt frá sparisjóðsstjórn vestur á fjörðum til þess að sitja í stjórn húsfélags Samfylkingarinnar í Kópavogi. Við sem nutum þess að fá að starfa með honum gleymum því hins vegar ekki hvernig hann lagði til. Því fleiri sem eru reiðubúnir til að leggja fram tíma sinn og þekkingu til samfélagsmála, að hjálpast að við úrlausn verkefna, eins og Bjarni, því betra verður samfélagið. Já, og það er engin ástæða til að vera leiðinlegur á meðan.
Fyrir hönd samfylkingarmanna í Kópavogi votta ég Valborgu og fjölskyldunni allri samúð okkar og þakkir.
Flosi Eiríksson.
Ég sat inni á skrifstofu minni þegar inn vatt sér vörpulegur maður og kynnti sig með þessum orðum: „Ég heiti Bjarni Pálsson, vantar ykkur ekki góðan stærðfræðikennara?“ Ég svaraði því játandi og spurði hvern hann væri með í huga. Hann benti þá á sjálfan sig. Þar með hóf Bjarni langan og líflegan kennaraferil í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Þótt ég bæri ekki strax kennsl á manninn vissi ég að Bjarni Pálsson hafði verið kröftugur og vinsæll skólastjóri í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði 1972-1981. Það kom líka á daginn að reynsla hans og kraftur nýttust okkur vel á fyrstu árum FG.
Bjarni kenndi jafnan stærðfræði og ýmsar viðskiptagreinar og náði vel til nemenda sinna með miklum áhuga og skemmtilegum húmor. Hann var einnig hrókur alls fagnaðar í starfsliði skólans í daglegu starfi og á ýmsum skemmtunum sem við héldum.
Bjarni var góður kennari og honum var mjög umhugað um velferð nemenda sinna og ræddi oft um hversu vel þeim hefði mörgum farnast í lífinu.
Umræður á kennarastofunni voru oft líflegar þegar Bjarni var annars vegar og stundum allheitar, sérstaklega þegar við tókumst á í pólitískum umræðuefnum.
Í minningunni hvílir þakklæti fyrir margar skemmtilegar og gefandi stundir.
Valborgu, eiginkonu Bjarna, og börnum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Bjarna Pálssonar.
Þorsteinn Þorsteinsson.
Eitt sinn fórum við Bjarni tveir saman í utanlandsferð. Þetta mun hafa verið sumarið 1970. Við flugum til Kaupmannahafnar og eftir viðdvöl þar héldum við til Þýskalands. Í Hamborg keypti Bjarni bíl sem við ferðuðumst á suður um Ítalíu og síðan upp Frakkland þar sem við höfðum viku stans í París. Þaðan var haldið til London, bíllinn settur þar í skip og við sigldum heim með Gullfossi frá Edinborg í Skotlandi. Þetta var mikið og skemmtilegt ferðalag. Bjarni sá fyrir öllu, ók eins og ekkert væri um stórborgir og fann gististaði þótt aldrei væri neitt pantað fyrirfram. Hann var óragur maður og úrræðagóður. Kom það vel fram við stjórn hans á Núpsskóla.
Það var ekki auðvelt verkefni að reka héraðsskólana. Þar var í mörg horn að líta. Á hverju ári þurfti að glíma við fjárveitingavaldið og knýja á um fjárveitingar til skólanna. Rekstur mötuneyta þurfti að bera sig. Umönnun unglinga á heimavistum var erilsamt og vandasamt verkefni. Aðstaðan á Núpi var að sumu leyti erfiðari en á öðrum héraðsskólum. Samgönguleiðir þangað langar og erfiðar, m.a. vegna snjóa, og þar er ekki jarðhiti, upphitunarkostnaður því mikill. Flest úrlausnarefni sem hér hafa verið nefnd hvíldu á herðum skólastjórans.
Bjarni var farsæll skólastjóri. Hann flutti aldrei skammarræður en leysti málin með lempni. Þá naut hann dyggrar aðstoðar Valborgar konu sinnar. Þau létu sér annt um velferð nemendanna sem upp til hópa bera þeim vel söguna og hafa með lífi sínu og störfum síðar aukið hróður skólans.
Vináttan við Bjarna og fjölskyldu hefur haldist óskert þótt samfundum hafi fækkað. Að leiðarlokum þökkum við langa og ánægjulega samfylgd. Valborgu og fjölskyldu vottum við innilega samúð.
Valdimar H. Gíslason
og fjölskylda, Mýrum.
Við Bjarni hittumst fyrst haustið 1960 á Núpi. Við vorum komnir til þess að kenna, herbergisfélagar í Prestshúsinu með þriðja nýliðanum, Guðmundi Þorsteinssyni frá Skálpastöðum. Eina vikuna hver köfuðum við snjóinn til gæslu í Alviðru. Allir þrír vorum við byrjendur í faginu og höfðum rigningu og vind í fangið í fleiri en einum skilningi, ef ekki snjóaði.
Veturinn 1960-1961 fór þrátt fyrir þetta ekki verr í okkur en svo að við Bjarni urðum báðir kennarar að ævistarfi og skólastjórar um skeið, hvor á sínum stað. Leiðir okkar skildu um vorið en Núpur og starfsvettvangurinn sáu til þess að við vissum alltaf hvor af öðrum og kíktum af og til á sjóð minninga frá Núpi. Ekki síst var það fyrir tilstilli nemenda sem kölluðu okkur stundum til endurfunda sinna.
Bjarni kom aftur á staðinn 1968 ásamt Valborgu. Um þær mundir mátti heita blómaskeið Núpsskóla í aðsókn og nemendafjölda. Um tuttugu ára skeið á milli 1955 og 1975 voru nemendur yfir 100 og ríflega það að meðaltali og alflestir um 160 síðustu ár Arngríms Jónssonar og fyrstu skólastjórnarár Bjarna. Hann tók við 1972 og þá má segja að kynslóðaskipti hafi orðið í stjórnunarháttum. Fyrirrennarar hans héldu uppi óttablöndnum aga sem byggðist meðal annars á vissri fjarlægð milli nemenda og stjórnenda, allt frá sr. Sigtryggi Guðlaugssyni til sr. Eiríks og Arngríms. Forræðishyggjan var rík.
Fátt var fjær Bjarna en tilbúið agaviðmót. Hann ætlaði nemendum dómgreind og ábyrgð og ræddi við þá á jafnræðisgrundvelli. Þetta gat verið í bland við stríðni og glens en aldrei án skilnings eða þannig að hann færi í manngreinarálit. Nemendur risu misvel undir þessu eins og gengur en hjálpsemi, alúð og hvatning einkenndu viðmót skólastjórahjónanna.
Sóknarhugur og uppbygging skólans einkenndu árin milli 1960 og 1970. Mörgu var þó ólokið þegar Bjarni tók við og segja má að áratugurinn næsti markaði upphaf varnarbaráttu héraðsskólanna.
Grunnskólalög voru sett 1974 eftir talsverðan aðdraganda og þjóðfélagsbreytingar. Lögin tiltóku lok landsprófs og gagnfræðaprófs, burðarása gagnfræðaskóla í sveit eins og héraðsskólarnir voru skilgreindir. Grunnskólar þorpa og stærri sveitarfélaga héldu nemendum heima og í garð gekk tími framhaldsdeilda og fjölbrautaskóla. Fækkun fólks í sveitum þrengdi enn að héraðsskólum. Starfsemi þeirra hafði verið veigamikill þáttur í atvinnulífi sveitarfélaga. Það kom í hlut Bjarna að laga Núpsskóla að þessum nýja veruleika og heyja varnarbaráttuna í orkukreppu og öðrum ytri þrengingum. Bjarni háði þessa baráttu ódeigur með kennurum sínum og samfélaginu öllu. Þótt sú barátta hlyti að lokum alls staðar að fara á einn veg dregur það ekki úr þakkarskuld Núpsskóla, nemenda sem heimafólks, við manninn Bjarna og hans fólk sem gaf sig allt og heils hugar að þátttöku í þessu nú horfna samfélagi á skólastað.
Aðalsteinn Eiríksson.
Eftir að hann fór á eftirlaun var hann duglegur að heimsækja okkur og gat lagt okkur línuna í landsmálum. Þar fylgdist Bjarni afar vel með og fór ekki með neitt fleipur. Eins var hann duglegur að mæta þegar við buðum fyrrverandi nemendum til okkar. Það fór ekki á milli mála að fyrrverandi nemendur höfðu hann í hávegum enda var Bjarni afbragðskennari sem hafði alltaf hagsmuni nemenda sinna að leiðarljósi. Bjarni var hrókur alls fagnaðar og var oft fenginn til að stýra samkomum skólans.
Síðast kom Bjarni í heimsókn til okkar í maí síðastliðnum og fannst okkur sem aðeins væri farið að draga af honum þótt andinn væri vissulega til staðar. Við þökkum fyrir þann tíma sem við áttum með Bjarna Pálssyni og vitum að minningarnar munu styrkja aðstandendur á þessum erfiðu tímum.
Með samúðarkveðju frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ,
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari.
Þetta og margt annað ræddum við oft yfir kaffibolla á heimili þeirra Valborgar við Sunnubraut í Kópavogi, en þar bar allt innanstokks sem utan þeim hjónum fagurt vitni. Þær samræður urðu oft fjörugar og fræðandi en umfram allt skemmtilegar, því Bjarna var lagið að draga fram spaugilegu hliðarnar á mönnum og málefnum. Og stundum brá fyrir kaldhæðni í orðum hans því hann mat mest hið göfuga í manninum en vissi hve oft breyskleikinn byrgir okkur sýn.
Bjarni Pálsson var menntamaður í víðtækri merkingu þess orðs. Hann menntaði aðra mestalla ævina, bæði formlega sem kennari og skólastjóri um áratuga skeið, en líka sem maður sem miðlaði öðrum óspart af reynslu sinni og þekkingu. Fyrir það munu margir minnast hans með réttu. Við hefðum viljað njóta liðveislu hans lengur.
Hans frændgarður er sterkur og vinmargur var hann, en þó er sú kona ein sem var í senn leiðarstjarna hans í lífinu og ankeri þegar braut á. Það er Valborg, ást hans og stolt, sálunautur þar til yfir lauk.
Við sendum henni og afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Guðbrandur Gíslason, Halla Magnúsdóttir og fjölskylda.
Um þær mundir hafði verið fundið upp hugtakið altæk stofnun. Heimavistarskóli var sortéraður sem altæk stofnun þar sem einn karl eða kerling réð fyrir slökkvaranum. Flestir nemendur beygðu sig undir húsaga og þá gekk allt smurt. Næg afþreying var á Núpi, útiíþróttir, sundlaug og gufubað, sjoppa og meira að segja alvöru bíó. Bjarni Pálsson var í essinu sínu þegar hann var að sýna hasarmyndir sem voru oft á gráu svæði fyrir börn og unglinga.
Miðlæg stofnun á heimavistarskóla var mötuneytið. Þar gat gengið á ýmsu og sumir unglingar höfðu lítt vanist mannamat. Þó var allt orðið roðlaust og beinlaust á þessum tíma og ekki þurfti að rustera neitt eða skræla. Bar þá við einn erfiðan dag í febrúar að kokkurinn var grýttur með dýrindis kjötbollum. Þegar hríðinni linnti gekk skólastjórinn í það sjálfsagða verk að þrífa veggi og loft með nemendum og eftirmál lítil. Fræðslustjórinn Sigurður KG á Ísafirði fékk veður af orrustunni og hringdi í Bjarna og var áhyggjufullur. „Það er nú allt í lagi að þeir grýti kokkinn á meðan þeir grýta ekki mig,“ svaraði Bjarni og málið var dautt.
Núpur er ekki í alfaraleið og einatt kvíðvænlegt að koma nemendum að og frá. Oft gekk á með hríðarbyljum og vetur voru erfiðari en nú. Á fundi héraðsskólastjóra með ráðuneytismönnum var brýnt fyrir þeim að sleppa liðinu ekki í jólafrí fyrr en alveg undir jól og til tekinn dagur. Um þetta varð japl þangað til Bjarni Pálsson stundi við: „Ég er nú vanur að senda það heim þegar rofar til.“ Og þá var málið líka dautt.
Þrjá vetur þreyði ég þorrann og góuna með Bjarna Pálssyni á Núpi. Þá sagði hann vera að koma að því að flytja suður ef þau ætluðu ekki að ílendast.
Þau fluttu í Garðabæ, við Hansína á Ísafjörð.
Bjarni Pálsson spurði aldrei um fortíð þeirra sem sóttu um skólavist á Núpi, nemendur komu bara á eigin forsendum. Hann hafði gott lag á að undirvísa í reikningi og var fjölda ára stærðfræðikennari í Garðabæ.
Get ekki stillt mig um að segja enn eina sögu af Bjarna Pálssyni. Þegar Guðrún móðir mín var jörðuð í desember 2015, 102 ára gömul, var framið bankarán meðan á jarðarförinni stóð. Erfidrykkjan fór fram á Nauthól við rætur Öskjuhlíðar. Öskjuhlíðin var umkringd sérsveitarmönnum að finna ræningjana og einnig umhverfis Nauthól. Þegar ég sagði Bjarna þarna í erfidrykkjunni að banki hefði verið rændur í Borgartúni svaraði hann að bragði: „Var það utan eða innan frá?“
Læt ég hér nótt sem nemur og við Hanna vottum Valborgu og börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð.
Finnbogi Hermannsson og Hansína Guðrún Garðarsdóttir.
Það hjálpaði upp á vinskapinn að við vorum báðir komnir á efri ár og höfðum báðir átt í erfiðri baráttu við Bakkus og báðum hafði tekist að kveða hann í kútinn einn dag í einu. Báðir þakklátir almættinu fyrir að vera á lífi eftir ógnarátökin sem fylgja slagsmálum við Bakkus. Það að vera til staðar fyrir okkar nánustu og geta fengið að njóta lífsins síðustu ár ævinnar er stórkostlegt. Þetta hjálpaði okkur Bjarna að bindast vináttuböndum. Það var gott að vera með Bjarna, hann hafði góða nærveru og í samræðum var alltaf stutt í húmorinn hjá honum. Hann var bóngóður og þau eru orðin mörg vandamálin sem ég hef borið undir hann og alltaf fengið góð og gagnleg svör, fyrir þetta þakka ég nú að leiðarlokum.
Bjarni og Valborg kona hans komu stundum með okkur Dunnu á Freeports-klúbbsfundi og höfðu þau gaman af því og að hitta gamla félaga. Þessi ár eftir aldamótin voru góð hjá Bjarna, hann var við góða heilsu, var virkur í lífinu, hafði setið í stjórn SÁÁ samfleytt frá stofnun samtakanna af miklum áhuga. Átti miklu barnaláni að fagna og ferðuðust þau hjónin mikið erlendis og ég dáðist mest að öllum skemmtisiglingunum hjá þeim.
Hann var afburðagóður í öllu sem laut að skattamálum og öðrum tengdum málum. Ég er ekki einn um að hafa notið góðs af þekkingu hans á þessu sviði og ég giska á að hann hafi verið með nokkra tugi einstaklinga og fyrirtækja á sinni könnu á hverju ári sem nutu góðs af hjálpsemi hans og færni í svona málum. Hann hefur örugglega ekki orðið ríkur af þessum viðskiptum peningalega en stórríkur af góðum vinum.
Ég kveð Bjarna með söknuði og votta Valborgu og fjölskyldu þeirra samúð mína.
Rúnar Guðbjartsson.