Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur, flytur erindið „Að fá (ekki) kosningarétt – eða missa“, kl. 12-13 á morgun, fimmtudag 19. október, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Hún beitir aðferðum samtvinnunar til að rýna með gagnrýnum hætti í „sigurgöngusöguna“ um kosningarétt íslenskra kvenna, sem fékkst 19. júní 1915, og spyrja „öðruvísi spurninga“ um takmarkanir kosningaréttarins og hindranir sem konur – og karlar – gátu staðið frammi fyrir eftir að hin borgaralegu réttindi voru formlega í höfn. T.d. þurftu nýir kjósendur að vera orðnir 40 ára og allt til ársins 1934 missti fátækt fólk kosningarétt og kjörgengi ef það skuldaði þeginn sveitarstyrk. Hjúskaparstaða, ómegð, aldur, fötlun og heilsufar gátu hindrað fólk í að lifa mannsæmandi lífi og vera fullgildir pólitískir þegnar og gerendur í samfélaginu. Þorgerður beinir sjónum sérstaklega að nokkrum konum sem neyddust til að þiggja sveitarstyrk og höfðu fyrir vikið ekki kosningarétt.
Erindið er á vegum RIKK og hluti af Jafnréttisdögum. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.