NBA
Gunnar Valgeirsson
Los Angeles
Sjaldan hefur sumarið verið eins afdrifaríkt í NBA-deildinni og það sem núna er að líða í þau 34 ár sem undirritaður hefur skrifað um deildina.
Eins og bent hefur verið á í þessum pistlum undanfarin ár hefur vald stjörnuleikmanna aukist í að kjósa hvar þeir leika – jafnvel þótt þeir séu samningsbundnir ákveðnu liði. Lengi vel voru það liðin sjálf sem skiptu leikmönnum sín á milli eins og hverri annarri vöru á markaði. Á undanförnum árum hafa bestu leikmennirnir breytt þessari stöðu og smám saman stillt liðum sínum upp við vegg hvað varðar óskir um hvar þeir vilji leika.
Byrjunina á þessari þróun rekja margir boltasérfræðingar til 2010 þegar LeBron James, sem þá var reyndar með lausan samning við Cleveland, ákvað að setja saman svokallað „súperlið“ í Miami með þeim Dwyane Wade og Chris Bosh. Árangur Miami breyttist um leið og liðið var í titilbaráttunni fjögur næstu árin með James.
Það var þá sem betri leikmenn deildarinnar byrjuðu að tala sín á milli um að koma þremur stjörnuleikmönnum saman til einhvers liðs, því það virtist nú allt í einu nýi mælikvarðinn á það hvort þessir leikmenn ættu tækifæri á að blanda sér í titilbaráttuna.
Þetta hefur vissulega komið sér vel fyrir leikmennina sjálfa en gerir erfiðara fyrir framkvæmdastjóra að skipuleggja langt fram í tímann og skapar tilfinningu um máttleysi hjá stuðningsfólki. Af hverju ætti ég að leggja allt mitt traust og tilfinningu í ákveðinn stjörnuleikmann liðs míns þegar ég hef enga hugmynd um hvort hann verður áfram í skyrtunni í næsta mánuði?
Stuðningsfólk stærri Evrópuknattspyrnuliðanna þekkja vel þetta dæmi.
Sjónvarpstekjurnar ráða
Í báðum þessum íþróttum er það innreið sjónvarpstekna sem rekur mikið ákvarðanatökuna. Leikirnir í deildunum verða þá peningalega séð ein ákveðin aðferð sem stór alþjóðleg samskipta- og fjölmiðlafyrirtæki nota til að laða áhorfendur að útsendingum leikja og þáttum tengdum þeim. Það eru þessir áhorfendahópar (sem og á netinu) sem eru orðnir varan á markaðnum sem þessi fyrirtæki eru að selja auglýsendum. Kapítalisminn hefur þannig gert íþróttirnar að tæki til gróðaleiðar meira en nokkuð annað – en með peningum koma oft skilyrði.Þegar langstærsti tekjustraumur deilda er orðinn fjölmiðla- og markaðstekjur er ákveðin pressa að skapa hágæðakeppni bestu leikmanna.
Meistaradeildin í Evrópuknattspyrnunni er dæmi um það.
Að sama skapi hafa þessar efnahagsbreytingar í vinsælustu atvinnuíþróttadeildunum gert það að verkum að laun leikmanna hafa vaxið ótrúlega hratt. Leikmennirnir sjálfir, m.a. í gegnum samskiptamiðla og markaðssetningu, eru nú orðnir sín eigin litlu fyrirtæki. Margir af þeim vilja af þeim sökum vera í sviðsljósi mikilvægustu leikjanna og þaðan kemur þessi vilji stjörnuleikmanna til að hópa saman nógu mörgum félögum til að eiga tækifæri á að vera í toppbaráttunni seint á keppnistímabilinu þegar áhugi stuðningsfólks er sem mestur.
Hvað með samkeppnina?
Þessar breytingar á stöðugleika leikmannahópa, og vald leikmanna til að leika þar sem þeir vilja, eru umræðuefnið þessa dagana í NBA-deildinni.Samkeppnishæfni flestra liða er einnig áhyggjuefni.
Í Evrópuknattspyrnunni er það einfaldlega hlutur af menningu og efnahagskerfi bestu deildanna sem gert hefur að verkum að einungis eitt, tvö eða mest þrjú lið eiga minnsta tækifæri á að vinna meistaratitilinn ár hvert (Leicester City er undantekningin sem sannar regluna). Í vinsælustu atvinnudeildunum hér vestra hafa bæði launaþök og háskólavalið gert það að verkum að styrkleiki liðanna er ekki eins langvarandi og í Evrópuknattspyrnunni. Eigendur Milwaukee Bucks geta ekki allt í einu eytt órúlegum fjárhæðum í að „kaupa nokkra af bestu leikmönnum heimsins“ til að vera samkeppnishæfir (Real Madrid, Manchester City, Chelsea og PSG eru dæmi úr Evrópuknattspyrnunni).
Jordan hefur áhyggjur
Liðsafrek í NBA-deildinni hefur mun meira að gera með rekstur þeirra og þjálfun en í Evrópuboltanum – eða svo hefur það lengi verið.Þróunin í að skapa svokölluð „súperlið“ í NBA hefur valdið mörgum áhyggjum hvað varðar það að hlífa samkeppnishæfninni í deildinni. Michael Jordan, sem nú er einn af eigendum Charlotte Hornets, hafði ákveðna skoðun á þessu máli í viðtali í síðustu viku. „Ég held að þessi þróun muni skaða samkeppnishæfnina ef aðeins eitt eða tvö lið eru frábær og hin 28 hálfgert rusl í samanburði. Þau lið munu eiga í erfiðleikum efnahagslega til langframa.“
Það kann að vera að Jordan hafi þessa skoðun nú þegar hann er í forsvari fyrir eitt af þessum 28 „ruslliðum“, en kappinn er einfaldlega að segja það sem margir sérfræðingar um málefni deildarinnar hafa verið að tala um undanfarin ár. Spurningin er hvort þessi nýlega þróun sé til lengdar eða hvort samkeppnisástandið nú sé einfaldlega hluti af stærri hringrás NBA-sögunnar.
gval@mbl.is