Handbolti
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handknattleik, hefur gengið frá þriggja ára samningi við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg og mun hann ganga til liðs við félagið næsta sumar. Rúnar hefur leikið með þýska liðinu Hannover-Burgdorf frá árinu 2013 en þar áður lék hann með þýsku liðunum Füchse Berlin, Bergischer, Grosswallstadt og Rhein-Neckar Löwen en örvhenta skyttan yfirgaf Fram eftir tímabilið 2009 og hélt út í atvinnumennskuna.
„Ég er bara mjög spenntur fyrir þessu og hlakka til að takast á við nýja áskorun. Ég og konan mín ákváðum þegar ég skrifaði undir síðasta samninginn við Hannover að það yrði minn síðasti samningur í Þýskalandi. Ég er að spila mitt níunda tímabil hér en nú viljum við breyta til,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.
„Þetta hefur verið frekar leiðinleg staða hjá mér með Hannover vegna lítils spiltíma. Að fá nánast aldrei að spila hvað sem gengur á úti á vellinum er mjög svekkjandi. Ég hef að vísu fengið að spila töluvert á þessu tímabili og þó svo ég hafi ekki skorað mikið hef ég náð að halda mér í ágætu leikformi,“ sagði Rúnar.
Ribe-Esbjerg er sem stendur í 12. sæti af 14 í dönsku úrvalsdeildinni með fimm stig eftir sjö leiki.
„Það kom fjársterkur aðili til félagsins fyrir einu og hálfu ári og það er mikill hugur í forráðamönnum liðsins. Það á að gefa enn frekar í og styrkja liðið með stærri bitum en þeir hafa reynt við áður. Þessi fjársterki aðili sagðist vilja landa titlinum á næstu tveimur árum og nú er verið að reyna að safna liði til að standa undir því markmiði hans. Mér hefur verið sagt að hópurinn muni breytast mikið fyrir næsta tímabil svo ég er bara spenntur fyrir þessu. Það virðist vera mjög vel að öllu staðið hjá félaginu en ég hitti bæði þjálfarann og íþróttastjórann fyrir nokkrum vikum og leist mjög vel á þeirra plön. Svo sakar ekki að Stella Sigurðardóttir, systir konunnar, og Tandri Már Konráðsson eru skammt frá okkur,“ sagði Rúnar en Tandri Már leikur með Skjern. Rúnar er 29 ára gamall og á að baki 84 landsleiki og hefur skorað 206 mörk.