Glitnir HoldCo hefur eina viku til að fá útgefna réttarstefnu af héraðsdómi til að höfða staðfestingarmál um lögbannið.

Glitnir HoldCo hefur eina viku til að fá útgefna réttarstefnu af héraðsdómi til að höfða staðfestingarmál um lögbannið. Eftir að stefna hefur verið gefin út er það héraðsdóms að ákveða þingfestingu í málinu en eftir þingfestingu er gefinn frestur til að skila öllum viðkomandi gögnum og þá fær dómari málið til meðferðar. Engin gögn eru til um meðal málsmeðferðartíma slíkra mála og þau njóta ekki forgangs eða flýtimeðferðar í dómkerfinu.

„Ef ætlunin er að halda málinu til streitu þá þarf að óska eftir því að héraðsdómur gefi út stefnu. Eftir að það hefur verið gert er þingsfesting ákveðin en alla jafna er hún innan við viku frá útgáfu stefnu. Eftir það fer málið í sinn farveg fyrir reglulegu þingi og fer eftir því hversu langan tíma það tekur að skila greinargerð. Þegar öll gögn eru komin fær dómari málið síðan úthlutað þannig að þetta er ekki dagaspursmál,“ segir Ingimundur Einarsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Eins og sakir standa er málið því í höndum Glitnis HoldCo.