Í færslu á facebooksíðu sinni tjáði Björk Guðmundsdóttir sig í gær frekar um kynferðislega áreitni sem hún varð fyrir af hendi danska leikstjórans Lars von Trier, við tökur á kvikmyndinni Dancer in the Dark. Brást hún þannig við eindreginni neitun leikstjórans sem segir ekkert slíkt hafa átt sér stað en það sé satt að þau hafi ekki verið neinir vinir við tökur á myndinni.
Björk setur fram lista með sex atriðum sem hún telur að megi flokka sem kynferðislega áreitni leikstjórans. Þar segir hún meðal annars að von Trier hafi ítrekað faðmað sig og strokið eftir tökur, gegn sínum vilja, og þegar hún hafi beðið hann að hætta hafi hann trompast.
Hún segir von Trier til að mynda einnig hafa hvíslað að sér myndrænum kynferðislegum skilaboðum og þá hafi hann hótað að klifra af svölum síns hótelherbergis yfir til hennar og flúði Björk þá í herbergi vinar síns. „Þetta gerði það loks að verkum að ég gerði mér grein fyrir alvarleika málsins og fékk mig til að standa á mínu,“ skrifar Björk og kveðst vilja aflétta þeirri þöggun sem ríkir um kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi.