Gunnar Markússon fæddist á Eyrarbakka 18.10. 1918. Foreldrar hans voru Þuríður Pálsdóttir verkakona, síðast í Hafnarfirði, frá Reynifelli á Rangárvöllum, og m.h., Markús Jónsson, sjómaður og verkamaður, síðast í Vestmannaeyjum, frá Torfastöðum í Fljótshlíð.
Eiginkona Gunnars var Sigurlaug Stefánsdóttir sem lést sl. vor, kennari, síðar bóka- og safnvörður, frá Akureyri.
Börn Gunnars og Sigurlaugar eru: Hildur, Þór Jens, Stefán og Ágústa.
Gunnar flutti fjögurra ára með foreldrum sínum til Vestmannaeyja þar sem hann missti föður sinn 1924. Hann flutti þaðan með móður og systkinum til Hafnarfjarðar er hann var 16 ára.
Gunnar var í barnaskóla í Vestmannaeyjum og fyrsta vetur í gagnfræðaskóla, lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg í Hafnarfirði, lauk kennaraprófi frá Kennarskóla Íslands 1939 og stundaði framhaldsnám í Danmarks Lærerhöjskole 1947-48 og 1959-60.
Gunnar var farkennari í Þingvallasveit 1939-41 og í Grafningi 1940-41, skólastjóri á Flúðum 1951-55, á Húsabakka í Svarfaðardal 1955-62 en lengst af í Þorlákshöfn 1962-80. Hann var bókavörður í Þorlákshöfn frá 1965 til dauðadags. Gunnar var formaður hafnarstjórnar Landshafnarinnar í Þorlákshöfn 1967-78, sat í stjórn Bókavarðafélags Íslands 1976-80, var heiðursfélagi þess frá 1997, sat í stjórn Félags skólastjóra og yfirkennara 1977-81, í byggingarnefnd sunnlenskra hafna 1973-76, var formaður sóknarnefndar Hjallasóknar 1982-92, sem síðar varð Þorláks- og Hjallasókn, sat í byggingarnefnd Þorlákskirkju, í stjórn Sögufélags Árnesinga og í ritnefnd Árnesings 1990-92.
Gunnar vann að söfnun og ritun heimilda um sögu Þorlákshafnar og Þorlák helga til dauðadags.
Gunnar lést á Þorláksmessu á sumri, 20.7. 1997.