18. október 1906 Sjö hús brunnu á Oddeyri á Akureyri og um áttatíu manns misstu heimili sín. „Mesti húsbruni á Íslandi,“ sagði blaðið Norðurland. 18.

18. október 1906

Sjö hús brunnu á Oddeyri á Akureyri og um áttatíu manns misstu heimili sín. „Mesti húsbruni á Íslandi,“ sagði blaðið Norðurland.

18. október 1911

Tryggvi Gunnarsson athafnamaður gaf Ungmennafélagi Íslands 45 hektara land við Sog og Álftavatn til að „klæða þessa landspildu í grænt skrúð, sér sjálfum til ánægju og öðrum til fyrirmyndar,“ eins og sagði í gjafabréfinu. Þar er nú Þrastaskógur.

18. október 1918

Þýskur kafbátur sökkti togaranum Nirði suðvestur af St. Kilda. Tólf manna áhöfn komst í báta og var bjargað sextíu klukkustundum síðar.

18. október 1995

Maður stökk inn fyrir afgreiðsluborð í Háaleitisútibúi Landsbankans í Reykjavík og greip 137 þúsund krónur úr peningaskúffu. Degi síðar var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi.

18. október 2001

Hiti í Reykjavík mældist 15,6 stig, sem var októbermet. „Sannkallaður sumarylur í lofti,“ sagði Morgunblaðið.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson