[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Mér finnst ég ekki hafa gert neitt svakalega dramatískt miðað við hvað stökkið upp á við í mínum leik hefur verið stórt. Ég tók þennan andlega þátt, sem hefur strítt mér allt of lengi, bara föstum tökum.

Golf

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Mér finnst ég ekki hafa gert neitt svakalega dramatískt miðað við hvað stökkið upp á við í mínum leik hefur verið stórt. Ég tók þennan andlega þátt, sem hefur strítt mér allt of lengi, bara föstum tökum. Núna horfi ég á leikinn allt öðruvísi. Öll mistök eru bara andleg,“ segir Axel Bóasson, sem átt hefur stórkostlegt ár í golfinu og gæti enn bætt rós í hnappagatið fyrir áramót.

Axel, sem varð Íslandsmeistari í sumar, var heiðraður með sérstakri athöfn í golfskála Keilis við Hvaleyrarvöll í gær, eftir að hafa tryggt sér sigur í heildarstigakeppninni á Nordic Tour-atvinnumótaröðinni. Afrekið er einstakt í íslenskri golfsögu og Axel, sem er 27 ára gamall, fékk með árangri sínum keppnisrétt á Áskorendamótaröð Evrópu á næsta keppnistímabili. Það er næststerkasta mótaröð álfunnar.

„Ég mun svo sannarlega nýta mér þennan keppnisrétt. Miðað við það sem ég hef séð þá mun ég geta spilað á flestum mótum. Ég mun reyna að læra sem mest af þessu ári og setja mér rétt markmið, og passa að fara ekki of geyst þó að ég hafi unnið þessa mótaröð, sem er ekki daglegt brauð fyrir íslenska kylfinga. Ef ég kemst á Evrópumótaröðina er það svo bara bónus. Ég er alla vega að færast áfram og það er það sem ég er ánægðastur með,“ sagði Axel, en hann ætlar að freista þess að vinna sér sæti á Evrópumótaröðinni áður en árinu lýkur. Hann er á leið til Frakklands og fer þaðan til Spánar þar sem keppt verður á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í nóvember.

Eins og fyrr segir hefur árið verið frábært hjá Axel, þó að það hafi reyndar ekki byrjað neitt sérstaklega því á fyrstu fjórum mótunum af 20 sem hann lék á Nordic Tour missti hann alltaf af niðurskurðinum. Síðan þá vann hann tvö mót, varð í 2. sæti á tveimur og alls 10 sinnum á meðal tíu efstu.

Framganga Haraldar hjálpaði

„Eftir að ég missti af niðurskurðinum á fjórða mótinu í röð þá fóru hjólin einhvern veginn að snúast. Ég tók þá ákvörðun að ég yrði að breyta einhverju, og eftir spjall við Jussa [Pitkanen] landsliðsþjálfara og Björgvin [Sigurbergsson, þjálfara] var það ljóst. Þetta snerist ekki mikið um tækni eða eitthvað slíkt, heldur meira hvernig ég æfði mig. Við styttum æfingar og ég gat einbeitt mér 100% að því sem ég vildi æfa. Svo fór ég að vinna í sálfræðinni með Jóhanni Inga [Gunnarssyni, sálfræðingi] og tók hana loksins föstum tökum. Við hittumst reglulega og hann gaf mér góð verkefni til að vinna í,“ sagði Axel. Hann segir það einnig hafa hjálpað að vera innan um fleiri Íslendinga á mótaröðinni:

„Það hjálpaði mikið að við skyldum vera fjórir Íslendingar. Haraldur Franklín [Magnús] byrjaði árið rosalega vel og maður sá þá að þetta væri alveg hægt. Haraldur er rosalega góður kylfingur en við höfum keppt saman það lengi að ég vissi að ef hann ætti erindi í þetta þá ætti ég það líka. Þetta gaf mér sjálfstraust og ég braut ísinn á fyrsta mótinu í Danmörku, þar sem ég náði 4. sæti. Svo varð snjóboltinn bara stærri og stærri.“