Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sendi fjölmiðlum fréttatilkynningu í gær, þar sem hann áréttaði lagagrundvöll fyrir lögbanni á fréttaflutning Stundarinnar sem byggður er á gögnum innan úr Glitni banka. Lögbannið byggist á 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um að sama þagnarskylda gildir um þá sem veita upplýsingum um einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis viðtöku og gildir um stjórnarmenn fjármálafyrirtækis.
Sýslumaðurinn áréttar einnig að lögbann sé bráðabirgðavernd réttinda til að tryggja tiltekið ástand meðan aflað er úrlausnar dómstóla sem fellur niður ef ekki er höfðað staðfestingarmál innan viku. Kemur fram í niðurlagi tilkynningarinnar að hann beri fullt traust til lögfræðinga á fullnustusviði embættisins sem fjölluðu um lögbannsmálið.
Kann að vera sami gagnaleki
Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo, sagði í Morgunblaðinu í gær að málið hefði einnig verið kært til Fjármálaeftirlitsins. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), segist lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu en FME þarf að kæra málið til héraðssaksóknara. „Það sem tengist okkur er gagnalekinn. Þetta er grunur um brot á 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki og samkvæmt sömu lögum er kveðið á um það að lögregla rannsaki ekki brot gegn þessum lögum nema hún hafi fengið kæru frá FME,“ segir Unnur en leiða má líkur að því að FME kæri málið til héraðssaksóknara enda var slíkt gert í sambærilegu máli í desember 2016, þegar Ríkisútvarpið birti upplýsingar úr Glitni í umfjöllun um fjárhagslega hagsmuni hæstaréttardómara.Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að það kunni að vera að gögnin sem notuð hafa verið í fréttaflutningi Stundarinnar komi úr sama gagnaleka og nýttur var í umfjöllun Ríkisútvarpsins 2016.
„Það mál er ennþá opið og er til meðferðar hjá okkur og tengist upplýsingaleka frá Glitni. Við höfum ekki fengið frekari kærur enn sem komið er. Þær kærur koma jafnan frá Fjármálaeftirlitinu sem þarf fyrst að afla tiltekinna gagna og þeir ákveða með formlegum hætti hvort þeir kæri málið til okkar. Það er ferli sem tekur tíma,“ segir Ólafur. Hann segir rannsókninni ekki lokið en henni miði áfram.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að persónuverndarlöggjöf eigi einungis við að takmörkuðu leyti þegar fjölmiðill er kominn með gögn í hendurnar. „Almennt séð þegar fjölmiðill vinnur með persónuupplýsingar vegast á mörk tvennra stjórnarskrárvarinna réttinda, annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsi. Það er mat Persónuverndar að dómstólar ákveði hvort vegur þyngra í hverju sinni. Þegar fjölmiðill er kominn með mál í hendurnar gildir 5. gr. persónuverndarlaga, sem í raun útleggst þannig að persónuverndarlögin gilda ekki nema að mjög takmörkuðu leyti,“ segir Helga og bætir við að Persónuvernd hafi ekki tekið formlega afstöðu til máls Stundarinnar.
Fjölmiðilsins að ákveða erindið
Spurð um hvaða áhrif það kunni að hafa að fjölmiðillinn hafi undir höndum persónuupplýsingar fjölda annarra aðila þegar fjallað er um mál opinberra aðila, segir Helga að það sé fjölmiðilsins að meta hvað á erindi til almennings. „Í lýðræðisríki, þar sem tjáningarfrelsi gildir, er það fjölmiðilsins að meta og þar þarf að hafa 5. gr. persónuverndarlaga í huga,“ segir Helga.Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að aldrei hefði staðið til að birta upplýsingar tengdar almenningi. „Augljóslega eru viðskipti venjulegs fólks ekki eitthvað sem við myndum nokkurn tímann fjalla um,“ sagði Jón en hann vill ekki gefa upp hvers eðlis gögnin eru, hvort þau séu unnin eða hrá. „Við tökum þetta hlutverk okkar að fara í gegnum þessi gögn mjög alvarlega. Við tjáum okkur sem allra minnst um eðli þeirra eða uppruna.“