Þórólfur Halldórsson, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, segist bera fullt traust til lögfræðinga á fullnustusviði embættisins, sem samþykktu á dögunum lögbann á fréttaflutning Stundarinnar. Hann áréttar lagagrundvöll fyrir lögbanninu í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla í gær. Þórólfur segir að lögbann sé bráðabirgðaúrræði sem kveður á um heimild til bráðabirgðaverndar réttinda með því að tryggja tiltekið ástand meðan aflað er úrlausnar dómstóla um þau.
Glitnir HoldCo kærði einnig gagnalekann sem Stundin notaði til fréttaflutnings til Fjármálaeftirlitsins (FME) en lögregla getur ekki rannsakað gagnalekann fyrr en kæra frá FME berst. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að engin kæra hafi borist embættinu en segir að það kunni að vera að um sé að ræða sama gagnaleka og nú þegar er til rannsóknar hjá embættinu vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins á fjárhagslegum hagsmunum hæstaréttardómara gagnvart Glitni árið 2016. 6