Salóme Huld Garðarsdóttir, kennari í Ölduselsskóla, á 40 ára afmæli í dag. Hún er að hefja sinn þriðja kennsluvetur í þeim skóla og kennir 6. bekk. „Ég var nemandi þar frá sjö ára og það má því segja að ég sé komin á heimaslóðir.“
Áður var Salóme búin að kenna í Vestmannaeyjum, Kópavogi, Noregi og Kenía, en hún var kristniboði þar í þrjú og hálft ár, eða frá 2001 til 2004. Hún er nýsest í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar. „Ég hef tekið þátt í kristilegu starfi frá því að ég man eftir mér. Núna er jólasöfnunin og jólaaðstoð að fara að byrja hjá okkur og sala á friðarkertunum. Hjálparstofnun er m.a. í samvinnu við Hjálpræðisherinn og Nettó með verkefnið „taupokar með tvöfalt hlutverk“, þar sem er verið að virkja konur sem hér hafa leitað hælis og til að stuðla að verndun umhverfisins með fjölnota pokum.
Fyrir utan vinnuna, börnin og kirkjuna þá er handbolti og fótbolti aðaláhugamálið hjá Salóme. „Maðurinn minn er handboltaþjálfari og það dregur okkur hingað og þangað um landið. Krakkarnir æfa síðan fótbolta og reyndar líka handbolta.“ Eiginmaðurinn heitir Gunnar Magnússon og er þjálfari meistaraflokks Hauka í karlaflokki og börn þeirra eru Kristbjörg Ásta 10 ára, Magnús Ingi 8 ára og Gunnar Karl 4 ára.
Það verður dekur hjá Salóme í dag og svokallað boblupartí. „Vinkonurnar koma í heimsókn og það verður smá veisla, ekki meira en það fyrst afmælið er í miðri viku. Við hjónin erum búin að klára afmælisferðina, fórum í fertugsafmælisferð í vor með vinafólki til Tenerife,“ en Gunnar varð fertugur núna í haust.