Gengi krónunnar er í ágætu samræmi við undirliggjandi þætti til lengri tíma, að mati greiningardeildar Arion banka sem fjallar um gengismál í Markaðspunktum. Útlit sé fyrir að viðskiptaafgangur verði áfram talsverður næstu misseri, sem gefi vísbendingu um að hagkerfið í heild ráði við gengi krónunnar eins og það er nú.
Þó gætu skammtímakraftar vegna viðskiptaafgangs, mikils hagvaxtar og mögulegrar losunar bindiskyldu á erlenda fjárfestingu ýtt krónunni í átt til lítilsháttar styrkingar í bráð. Bankinn bendir á að vaxtamunur hafi minnkað talsvert og því ekkert því til fyrirstöðu að slaka á bindiskyldunni og endurmeta hvort á annað borð sé þörf á henni við núverandi aðstæður.