Veiði Hnúðlaxar hafa veiðst víða í ám, en þessi veiddist á silungasvæði Hofsár fyrir nokkrum árum. Uppruni hnúðlaxa er í Kyrrahafinu.
Veiði Hnúðlaxar hafa veiðst víða í ám, en þessi veiddist á silungasvæði Hofsár fyrir nokkrum árum. Uppruni hnúðlaxa er í Kyrrahafinu. — Morgunblaðið/Jón Sigurðarson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Hafrannsóknastofnun hafa í sumar og haust borist tilkynningar um hátt í 70 hnúðlaxa í íslenskum veiðiám. Fréttir um þennan fisk, sem á uppruna að rekja til norðanverðs Kyrrahafs, hafa borist úr veiðiám um allt land.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Hafrannsóknastofnun hafa í sumar og haust borist tilkynningar um hátt í 70 hnúðlaxa í íslenskum veiðiám. Fréttir um þennan fisk, sem á uppruna að rekja til norðanverðs Kyrrahafs, hafa borist úr veiðiám um allt land. Fjöldinn er um sexfalt meiri heldur en algengt er hérlendis á einu ári.

Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að þetta séu ekki endanlegar tölur, þar sem enn er beðið eftir uplýsingum úr veiðibókum úr veiðihúsum með skráningu á afla sumarsins. Sömuleiðis geti verið skekkja í fyrirliggjandi gögnum og sami fiskur skráður oftar en einu sinni. Allmargir hnúðlaxar hafa borist Hafrannsóknastofnun til sýnatöku og greiningar.

Velta fyrir sér áhrifunum

Aukin útbreiðsla hnúðlax hérlendis er í samræmi við þá sprengingu sem hefur orðið í fjölda þeirra í norskum ám. Hnúðlaxar hafa á þessu ári veiðst í 236 ám í Noregi og er fjöldi fiska kominn yfir 2.600. Fjöldinn hefur sömuleiðis stóraukist í ám á Bretlandeyjum og suður til Frakklands og Spánar.

Guðni segir sérfræðinga velta fyrir því sér hvaða áhrif þetta muni hafa og hvort þessi útbreiðsla verði varanleg. Rússar fluttu hnúðlax frá Kamtsjatka yfir á Kólaskaga á sjötta áratug síðustu aldar og fram undir 1970 og mynduðust sjálfbærir stofnar í ám við Hvítahaf og Barentshaf.

Hnúðlax blandast ekki Atlantshafslaxi í íslenskum ám og ekki eru upplýsingar um að hann sé farinn að hrygna hér enn sem komið er hvað sem verður. Mögulegt er þó að hér hafi hrygnt hnúðlaxar en ekki er vitað til að hér hafi myndast stofnar. Í haust hafa veiðst laxar sem hafa hrygnt en hrygningartími hnúðlaxa er fyrr en okkar laxa.

Ekki æskileg breyting

Yfirleitt hrygnir hnúðlax neðarlega í ám og miðað hefur verið við að hann gangi ekki lengra en um tólf kílómetra upp í ár. Í Noregi og Finnlandi eru þó dæmi um að hann hafi gengið um 35 kílómetra upp í ár.

Guðni segir að aukin útbreiðsla þessarar nýju tegundar sé breyting á líffræðilegum fjölbreytileika, nokkuð sem mönnum finnist ekki æskilegt. Heimkynni hnúðlaxa séu í Kyrrahafi. Í Noregi hafi menn sums staðar brugðið á það ráð að fara í árnar eftir að veiðitíma lauk og draga þar fyrir til að drepa eins mikið af hnúðlaxi og þeir gátu til að stemma stigu við frekari útbreiðslu tegundarinnar.