Svanhildur Sveinbjörnsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 26. september 1965. Hún lést á líknardeild Landspítalans 9. október 2017.
Foreldrar Svanhildar eru Sveinbjörn Guðlaugsson, f. 4.12. 1925, og Svanhildur Guðmundsdóttir, f. 29.8. 1931. Systkini Svanhildar eru Gísli, f. 7.4. 1954, og Emilía, f. 24.9. 1958.
Hinn 13.9. 1997 giftist Svanhildur Arnari Jónssyni viðskiptafræðingi, f. 28.10. 1965, en þau hófu sambúð 1990. Svanhildur og Arnar eignuðust tvær dætur, þær Karen, f. 25.1. 2001, og Emilíu, f. 22.9. 2004. Fjölskyldan er búsett í Garðabæ.
Svanhildur flutti með foreldrum sínum upp á land eftir eldgosið á Heimaey, fyrst til Reykjavíkur, með viðkomu í Kópavogi, en síðar í Mosfellssveit, þar sem Svanhildur ólst upp. Svanhildur útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund og stundaði síðan nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk þar cand.oecon.-prófi 1991 sem hagfræðingur. Svanhildur starfaði eftir útskrift á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Haustið 1993 hélt Svanhildur ásamt Arnari, verðandi eiginmanni, til Danmerkur og hófu bæði framhaldsnám í fjármálum og reikningshaldi við Handelshøjskolen í Kaupmannahöfn. Svanhildur lauk cand.merc.-prófi frá Handelshøjskolen árið 1996. Sama ár fluttu Svanhildur og Arnar aftur til Íslands. Starfaði hún sem sérfræðingur hjá lyfjaverðsnefnd til ársins 2001 og hjá Tryggingastofnun Íslands frá 2002 til 2006. Í störfum sínum hjá ofangreindum stofnunum kom hún að margvíslegum verkefnum varðandi lyfjamál og verðlagningu lyfja á Íslandi og lagði ásamt öðrum grunn að þeim lyfjagagnagrunni sem nú er notaður í heilbrigðiskerfinu. Frá árinu 2006 var Svanhildur heimavinnandi og helgaði líf sitt uppeldi dætra sinna tveggja og uppbyggingu á fallegu heimili fjölskyldunnar.
Útför Svanhildar verður gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 19. október 2017, klukkan 15.
Elsku mamma, mamma mín. Mér finnst andlát þitt vera bæði óréttlátt og ósanngjarnt. Maður spyr sig „af hverju mamma mín?“ og „af hverju við?“. Mér líður eins og það hafi verið í gær að þú áttir fimmtugsafmæli og við fögnuðum öll fjölskyldan saman í huggulegheitum uppi í sumarbústað. Þannig vildir þú hafa það; ekkert flókið, engin veisla eða fínheit, bara við fjölskyldan að borða góðan mat og hlæja. Ég sakna þess að koma heim úr skólanum og sjá þig brosandi og spyrjandi hvernig hafi gengið þann dag og hvernig þú nenntir að hlusta á hverja unglingasöguna á eftir annarri. Ég sakna þess að þú haldir utan um mig, þú varst svo mjúk og þú lyktaðir svo vel. Þú misstir aldrei vonina og barðist eins og hetja allan tímann þótt greiningin í byrjun hafi verið þungur dómur. Þú varst hörkujaxl og sjálfstæð glæsikona sem ætlaði ekki að láta neitt stoppa sig. Þú varst svo handlagin, þú gerðir við allt sem bilaði, öll útvörp, allar vélar, öll ljós, þú tókst þig meira að segja til og hljóðdempaðir allt húsið af því þú varst orðin leið á bergmálinu.
Ég veit að það var ekki létt að hætta að vinna og hugsa alfarið um mig og systur mína en þú gerðir það samt og er ég ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið lengri tíma með mömmu minni á þessum árum en flest börn fá.
Sumarbústaðurinn verður okkar griðastaður. Þar munum við koma, leggjast á grasflötina fyrir framan bústaðinn og horfa upp til þín og þú niður til okkar. Þar mun ég segja þér allt það sem er að gerast í lífi mínu þannig að þú missir ekki af neinu. Þar mun ég líka koma með börnin mín og leyfa þeim að fá að njóta þess sem þú hefur gert þar.
Elsku mamma, ég vona að þú hvílir í friði. Ég á eftir að sakna þín á hverjum einasta degi og ég er sannfærð um að við eigum eftir að hittast aftur.
Karen.
Þegar ég skrifa þessi minningarorð kemur fyrst upp í huga mér þakklæti fyrir þann tíma sem ég fékk með þér, sem var allt of stuttur. Þú varst alltaf með réttu svörin við öllu og varst óspör á góð ráð. Það er ómögulegt að hugsa sér lífið án þín en við verðum að halda áfram, það hefðir þú viljað, elsku Svanhildur. Ég mun aldrei gleyma þeim góðu stundum sem við áttum saman öll jól frá því ég man eftir mér, og öllum sumarbústaðarferðunum okkar í Skorradalinn og í Tintu þar sem gleðin var alltaf við völd.
Ég dáðist að þér í móðurhlutverkinu og mun því taka þig til fyrirmyndar í uppeldi dóttur minnar. Þú munt ávallt eiga stóran stað í hjarta mínu og ég mun halda minningu þinni á lofti, elsku Svanhildur mín. Þín verður ávallt sárt saknað. Megi Guð vera með þér og gefa Arnari, Karen og Emilíu styrk á þessari erfiðu stundu.
Ég mun elska þig til æviloka,
Þinn frændi
Jóhann.
Við vorum í miðju kafi að skipuleggja framtíðina, og sumarið sem átti að vera ansi viðburðaríkt. Við ætluðum að hafa svo gaman, gera meira, hlæja meira og einfalda líf okkar svo að það væri örugglega pláss fyrir alla þessa gleði.
Það er svo sárt að horfa á eftir þér, þú varst límið í litla hópnum okkar. Þú varst leiðtoginn okkar sem leiðbeindi okkur á þinn einstaka hátt. Þú gafst svo mikið af þér, þú gafst okkur allt þitt.
Þú hlóst svo innilega, grést, gladdist, huggaðir, leystir flækjur og leiðbeindir, ekkert var þér ofviða. Þú varst ofurkonan mín. Ég leit svo upp til þín, þú varst Svanhildur frænka mín, en í laumi varst þú stóra systir mín. Þú leiddir mig áfram í lífinu og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.
Ég mun sakna þess að geta hringt í þig, ég mun sakna þess að heyra röddina þína og hlátur. Lífið verður aldrei eins án þín.
Þrátt fyrir þennan mikla tómleika, sorg og depurð er þakklæti mér ofarlega í huga. Þakklæti fyrir að hafa kynnst einstakri konu. Það er enginn þér líkur, þú toppar allt. Þú ert einfaldlega sú allra besta.
Elsku dætur þínar, Emilía og Karen, munu alltaf eiga griðastað hjá mér. Ég mun leiðbeina þeim í þínum anda og eftir bestu getu, miðla úr þeim viskubrunni sem þú hefur lagt grunn að.
Elsku Arnar, Karen og Emilía, ég veit að söknuður ykkar er mikill og sorgin virðist óyfirstíganleg. Þið getið verið stolt af ykkar einstöku Svanhildi; sem eiginkona og móðir, systir, frænka og dóttir gæddi hún líf okkar allra gleði og styrk.
Svanhildur, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og fjölskyldu minni. Fyrir þig er ég svo þakklát. Hvíl í friði, elsku, Svanhildur mín.
Þín
Hrafnhildur.
Þú varst fyrirmyndin mín. Þú gladdir mig alltaf. Þú varst alltaf svo kát og glöð. Ég vona að þú hafir verið sátt við lífið sem þú lifðir með okkur.
Þú munt alltaf búa í hjarta mínu og ég mun sakna þín.
Kveðja, þín litla frænka
Indíana.
Við hittum þessa fallegu og hæglátu stúlku fyrst, þegar Arnar kynnti hana fyrir fjölskyldunni er þau voru enn við nám í Háskólanum. Það var mikil gæfa að fá að fylgjast að með þeim Arnari, Svanhildi og stelpunum þeirra þeim Karenu og Emilíu í gegnum lífið. Þeirra fallega heimili var alltaf gott að heimsækja enda var gestrisni þeirra mikil. Alla tíð áttum við sérlega góð samskipti og erum þakklát fyrir samferðina.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Við kveðjum Svanhildi með virðingu og miklu þakklæti fyrir góðar minningar og vináttu.
Elsku Arnar, Karen og Emilía, megi almættið gefa ykkur styrk í ykkar miklu sorg.
Smári og Áslaug,
Jón Fannar,
Thea og Davíð,
Guðjón og Valdís.
Kynni okkur hófust á Bjarkargötunni þar sem við lásum saman í viðskiptafræðinni og þar fann Svanhildur líka Arnar Jónsson, ástina í lífi sínu. Við komum hvert úr sinni áttinni en þarna var spunninn þráður sem hélst óslitinn og vinkonur okkar voru fljótar að gera þessa hressu og skemmtilegu stelpu að sinni.
Svanhildur var þá svolítið eins og stormsveipur; röskur og drífandi töffari sem vílaði ekkert fyrir sér og hélt uppi stuðinu í kringum sig með meitluðum húmor. Það var dæmigert að þegar henni ofbauð draslið þreif hún án þess að nöldra í okkur, gekk bara í verkin. Ef eitthvað bilaði græjaði hún það líka, skipti um pakkningu í krananum eða skrúfaði saman lasna hillu. Sjálfstæðisþörfin var rík í Svanhildi, hún vildi geta bjargað sér með alla hluti og til dæmis gerði hún sjálf við bílinn sinn.
Hún fór líka eigin leiðir og lét engan segja sér fyrir verkum. Í útskriftarferðinni til Singapúr og Balí fór hópurinn í fyrirtækjaheimsóknir. Þá klæddu strákarnir sig í jakkaföt og við stelpurnar í dragtir, nema Svanhildur. Hún ætlaði ekki að fylgja svona fáránlegum reglum. Um leið var klassi yfir henni, en það var hennar eigin persónulegi stíll í samræmi við skapgerð hennar og karakter.
En svo var önnur hlið á Svanhildi sem fékk meira pláss með árunum, heimakæri fagurkerinn með grænu fingurna þar sem fjölskyldan var miðpunkturinn. Hún var nefnilega í aðra röndina hlédræg og sjálfri sér nóg, naut sín best í litlum hópi. Heimilið lýsti henni líka vel þar sem hvert atriði var útpælt og allt miðað að því að skapa notalega og hlýlega umgjörð um lífið. Hlutverk gestgjafans fór henni vel og þess fengum við að njóta. Matarboðin voru ekki bara þau skemmtilegustu heldur fann maður hvað gestirnir voru alltaf innilega velkomnir og nostrað við alla hluti svo öllum liði vel.
Minningar um Svanhildi streyma fram en við stöldruðum sérstaklega við eina, engan stórviðburð, bara afslappaða samveru á sumardegi. Kannski vegna þess að hún er í senn svo falleg og sár. Fyrir fimmtán árum hittumst við þrjár með fjölskyldum okkar í sumarbústað á Laugarvatni og áttum saman yndislegan dag. Lífið lék við okkur og framtíðin blasti við björt og skær í augum barnanna okkar litlu sem léku sér áhyggjulaus í blíðunni. Í dag er sárt að rifja þetta upp, nú þegar fallegu systurnar horfa á eftir ástkærri móður og Arnar á eftir lífsförunaut sínum.
Minningin um heilsteypta og yndislega manneskju mun lifa og allar ánægjustundirnar með þessari kláru, skemmtilegu, traustu og hlýju vinkonu, minningin um Svanhildi sem öllum þótti vænt um sem voru svo gæfusamir að fá að kynnast henni. Elsku Arnar, Karen og Emilía, megi allar góðar vættir styrkja ykkur í sorginni.
Ásgerður og Thelma.
Tíminn þar var okkur ógleymanlegur; styrkti og dýpkaði vináttu okkar sem var þó ærin fyrir. Svanhildur var yndisleg manneskja. Gefandi og traustur vinur. Hafði óþrjótandi kímnigáfu og hláturinn var aldrei langt undan. Hún var ráðagóð, alltaf tilbúin að gefa af sér. Svanhildur var einstaklega laghent. Það lék hreinlega allt í höndunum á henni. Það kom sér oft vel að eiga hana að þegar eitthvað fór að bila í íbúðinni sem við bjuggum í. Stífla í baðkarinu eða slanga fór að leka, Svanhildur mætt með skrúfjárn og rörtöng að vopni og málinu reddað í snatri. Það var í raun alveg aðdáunarvert hversu útsjónarsöm og áræðin hún gat verið. Minningin mín um Svanhildi er hlýja, bros og hlátur.
Í dag fylgi ég þér síðasta spölinn.
Ég kveð þig með táraflóði og djúpum söknuði, elsku Svanhildur mín.
Hvíl í friði.
Elsku Arnar, Karen og Emilía, ég votta ykkar mína dýpstu samúð.
Elfa Dís Austmann
Jóhannsdóttir.
Svanhildur var mikil fjölskyldumanneskja, Arnar og stelpurnar þeirra voru fjöreggið hennar. Harmur þeirra, foreldra og systkina er mikill, hugur okkar er hjá þeim.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Takk fyrir allt og allt, elsku Svanhildur.
Anna, Hólmfríður, Gígja, Hildur og
Sigríður.