Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og atvinnumaður um árabil, hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarliðs HK og tekur þar við af Jóhannesi Karli Guðjónssyni, sem var á dögunum ráðinn til Skagamanna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru samningsmálin í höfn.
Brynjar hefur síðustu fjögur árin verið aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, við hlið Rúnars Páls Sigmundssonar, og tók þar þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Garðabæjarliðsins.
Brynjar, sem er 42 ára gamall, lék með meistaraflokki KR frá 1995 til 1997 en síðan með norsku liðunum Våleenga og Moss, sænska liðinu Örgryte og ensku liðunum Stoke, Nottingham Forest, Watford og Reading. Með Reading spilaði Brynjar tvö ár í ensku úrvalsdeildinni. sport@mbl.is