Róbert Farestveit
Róbert Farestveit
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) birti í ágúst skýrslu um skattbyrði mismunandi tekjuhópa á tímabilinu 1998 til 2016. Var niðurstaðan meðal annars sú að aukningin í skattbyrði sé „langmest hjá þeim tekjulægstu“.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) birti í ágúst skýrslu um skattbyrði mismunandi tekjuhópa á tímabilinu 1998 til 2016. Var niðurstaðan meðal annars sú að aukningin í skattbyrði sé „langmest hjá þeim tekjulægstu“.

„Þegar skoðað er samspil tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar, auk barna- og vaxtabóta, hefur t.d. skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) í heildina aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur því minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði,“ segir orðrétt um skýrsluna á vef ASÍ.

Róbert Farestveit er hagfræðingur hjá ASÍ.

„Í þessu dæmi var tekið tillit til bæði persónuafsláttar og barna- og vaxtabóta. Niðurstaðan er sú að skattbyrði para hefur aukist. Þá bæði vegna minnkandi vægis persónuafsláttar og einnig veikingar tilfærslukerfanna,“ segir Róbert.

Hann segir skattbyrði einstakra hópa geta birst sem neikvæður skattur. Þá til dæmis hjá lágtekjuhópum sem eru með bætur sem núlla út greiddan skatt.

Spurður hvort fram komi í skýrslunni að skattbyrði allra hópa nema efstu tekjutíundarinnar hafi aukist síðustu ár segir Róbert svo ekki vera. Þannig hafi eingöngu verið horft á tekjufjórðunga í skýrslunni á tímabilinu 1998 til 2016.

Meðal efnis í skýrslu ASÍ er graf sem sýnir að staðgreiðsla eykst með vaxandi tekjum.