Nýstirni Norska tónlistarkonan Sigrid í viðeigandi stuttermabol.
Nýstirni Norska tónlistarkonan Sigrid í viðeigandi stuttermabol.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Norska tónlistarkonan Sigrid kemur fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 3. nóvember, í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, skömmu fyrir miðnætti.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Norska tónlistarkonan Sigrid kemur fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 3. nóvember, í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, skömmu fyrir miðnætti. Sigrid er nýorðin 21 árs og ólst upp í Álasundi þar sem hún er stödd þegar blaðamaður nær tali af henni snemma morguns. Hún segir blaðamanni að hún sé á leið í fjallgöngu með mömmu sinni og fær hrós fyrir að vera svo spræk, eldsnemma að morgni. Sigrid býr í Bergen og ferðast mikið og þá oft til London þar sem hún er á plötusamningi hjá Island Records, auk þess að flakka milli landa og koma fram á tónleikum og ýmsum tónlistarhátíðum.

Sigrid sendi frá sér fyrstu smáskífu sína, hið grípandi popplag „Don't Kill My Vibe“, í febrúar á þessu ári og hefur lagið notið mikilla vinsælda á öldum ljósvakans og í streymisveitum á borð við Spotify. Það var þó ekki fyrsta lagið sem hún gaf út því það gerði hún þegar hún var enn í menntaskóla. 18 ára flutti Sigrid til Bergen til að freista gæfunnar í tónlistarbransanum. Það borgaði sig því hún nýtur nú sívaxandi vinsælda fyrir grípandi laga- og textasmíðar og fagran söng og ljóst að þar fer rísandi stjarna í poppheimi.

Svaraði áskorun bróður síns

Sigrid segist hafa komið fram á sínum fyrstu tónleikum 16 ára að aldri, eftir að bróðir hennar, sem einnig er tónlistarmaður, manaði hana til þess að semja lag og flytja með honum á tónleikum. Tónleikarnir gengu vel og segist Sigrid hafa áttað sig á því að þetta væri það sem hún vildi leggja fyrir sig. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég kom fram opinberlega,“ rifjar hún upp. „Ég var taugaóstyrk en naut þess samt að syngja frammi fyrir áhorfendum, vinum mínum þar á meðal. Ég hafði áður tekið þátt í jólasýningum í skólanum, sungið tökulög og þess háttar, en þarna naut ég mín virkilega vel.“

– Þú ert með kraftmikla og fallega söngrödd, hefurðu hlotið þjálfun í söng?

„Já, reyndar. Ég byrjaði í söngtímum þegar ég var í sjöunda bekk en þeir eru hluti af frístundakerfi hérna í Noregi sem tekur við að skóladegi loknum. Ég var ekki mjög metnaðarfullur tónlistarnemi en sótti þó kennslutíma í píanóleik og söng í mörg ár, bæði í grunn- og framhaldsskóla. Ég veit ekki hvort þú þekkir til norskrar hljómsveitar sem nefnist Highasakite en Solveig Håvik, móðir söngkonunnar í þeirri sveit, Ingrid Helene Håvik, hefur verið söngkennarinn minn í mjög mörg ár, líklega tíu,“ svarar Sigrid og segir Solveigu afar færan kennara sem hafi kennt sér margt gagnlegt.

Slakar á í Álasundi

– Þú ólst upp í smábæ í Noregi og ert núna komin með plötusamning við Island Records í London. Það er býsna stórt stökk, hefur reynst þér erfitt að halda þig á jörðinni?

Sigrid hlær. „Ég held að þú verðir að spyrja foreldra mína og vini að því en ég vona svo sannarlega að ég hafi gert það,“ svarar hún. „Það er virkilega gott að komast aftur til Noregs því líf mitt hefur gjörbreyst á síðastliðnu ári. Eftir að „Don't Kill My Vibe“ kom út hafa orðið miklar breytingar á lífi mínu, ég er á sífelldum tónleikaferðalögum og kom frá Los Angeles fyrir tveimur dögum þar sem ég var að kynna plötuna í tvær vikur,“ segir Sigrid og á þar við EP-plötu sína, stuttskífuna Don't Kill My Vibe sem inniheldur fjögur lög. „Þetta er klikkað og þess vegna finnst mér dásamlegt að koma aftur til Álasunds því hér ólst ég upp og mér líður vel hérna, hér næ ég að slaka á. Álasund verður alltaf mitt fyrsta heimili.“

Á lista Lorde

– Nýsjálenska poppstjarnan Lorde setti „Don't Kill My Vibe“ á persónulegan lagalista sinn sem hún deildi á Spotify. Heldurðu að það hafi haft mikil áhrif á vinsældir lagsins og þínar vinsældir?

„Ég hef ekki séð neinar tölur hvað það varðar en ég býst við því, já. Hún á sér marga aðdáendur og þeir hafa séð lagalistann og væntanlega hlustað á lagið mitt, sem er frábært. Mér fannst mjög almennilegt af henni að setja lagið á listann og ég kann henni þakkir fyrir. En svo skemmtilega vill til að ég var að hlusta á hennar tónlist þegar ég gerði EP-plötuna mína og þetta sýnir vel hversu útbreidd tónlist er orðin í heiminum með tilkomu netsins, hún getur hlustað á lögin mín í Los Angeles eða á Nýja-Sjálandi og ég get hlustað á lögin hennar í Noregi. Ég leitaði mér upplýsinga um hana á netinu fyrir mörgum árum og hef horft á tónleika með henni. Við gerum ólíka tónlist en þó báðar popptónlist. Hún er frábær tónlistarmaður.“

Írland klikkað

– Þú hefur haldið tónleika í mörgum löndum, hvar hefur þér þótt skemmtilegast að koma fram?

„Við, það er ég og hljómsveitin, höfum verið mjög heppin með viðtökur nánast alls staðar þar sem við höfum troðið upp. Það er mikill heiður fyrir mig að vera bókuð á svo marga tónleika og að fólk mæti á þá. En við hljómsveitin erum líklega sammála um að Írland sé klikkaðasta landið sem við höfum haldið tónleika í, ég hef ekki séð önnur eins viðbrögð!“ segir Sigrid og hlær innilega. Tónleikagestir hafi verið í ógnarstuði og margir hverjir staðið á öskrunum. „Ég veit ekki hvað olli þessu, hvort þeir voru svona miklir aðdáendur okkar eða hvað, en þetta var í það minnsta alveg geggjað!“

Draumur rætist

Sigrid hefur komið áður til Íslands, til Akureyrar þegar hún var í tíunda bekk grunnskóla og segir hún Íslandsferðina hafa verið dásamlega. „Ég dýrka Ísland, þjóðina og náttúruna, og mig hefur lengi dreymt um að halda tónleika á Íslandi. Nú rætist sá draumur loksins,“ segir Sigrid og heyra má á röddinni að hún hlakkar mikið til.

Sigrid er að lokum spurð hvaða lög hún muni flytja á Iceland Airwaves og segir hún að þar sem hún hafi aðeins gefið út fjögur lög verði þau öll flutt og líklegt að ný lög verði prufukeyrð að auki. Allt muni þetta koma í ljós í Hafnarhúsi, föstudaginn 3. nóvember.