,,Barnabætur breyttust lítið fram til ársins 2006 þegar þær voru hækkaðar talsvert en frá árinu 2012 hafa bæturnar lækkað að segja má ár frá ári,“ segir í úttektinni í Tíund. Fram kemur að í álagningu 2017 voru 9,3 milljarðar greiddir í barnabætur, sem er minna en greitt var árið 1992. „Vægi barnabóta í skattkerfinu hefur því minnkað nokkuð á síðustu tveimur áratugum,“ segir þar.
Ríkisskattstjóri reiknaði landsmönnum í ár 4,3 milljarða í vaxtabætur af vaxtagreiðslum á árinu 2016. Fram kemur að þetta er 18,4% minna en í fyrra. Bent er á að lækkun vaxtabóta á undanförnum árum beri að skoða í ljósi þess að fasteignaskuldir landsmanna voru leiðréttar með tilliti til verðlags árið 2015. ,,Þá eru bæturnar tekju- og eignatengdar og því ekki nema von að þær minnki þegar eignir hækka í verði og tekjur hækka.“