Sigurður Þorri Gunnarsson siggi@mbl.is „Senn líður að kosningum,“ eins og þingmaðurinn í Dalalífi sagði forðum í flórnum. Umræðan í aðdraganda kosninga snýst mikið um að horft sé til framtíðar og um uppbyggingu innviða í samfélaginu.

Sigurður Þorri Gunnarsson

siggi@mbl.is „Senn líður að kosningum,“ eins og þingmaðurinn í Dalalífi sagði forðum í flórnum. Umræðan í aðdraganda kosninga snýst mikið um að horft sé til framtíðar og um uppbyggingu innviða í samfélaginu. Þegar rætt er um innviðauppbyggingu má ekki gleyma sér bara í umræðum um steinsteypu og malbik heldur þarf að huga að listinni. Ég spái því t.d. að á næsta áratug verði tónlist ein af okkar helstu útflutningsvörum. Hún er reyndar nú þegar orðin stór útflutningsvara og eru íslenskir tónlistarmenn úti um allan heim annaðhvort að skrifa undir plötusamninga eða á tónleikaferðalagi. Það má ekki gleyma að hlúa að tónlistarfólkinu okkar og gera umhverfið þannig að hæfileikafólk geti skapað sína list og lifað á henni. Ekki má heldur gleyma því að góð tónlist er ígildi heilu bílfarmanna af geðlyfjum. Ég nota tónlist mjög mikið sjálfur, bæði til þess að gleðja mig þegar mér líður ekki nógu vel eða róa mig þegar stressið er mikið. Svo flæða góðir hormónar um líkamann þegar komið er heim af góðum tónleikum, t.d. úr fallega og góða tónlistarhúsinu okkar, Hörpu. Áfram íslenskir tónlistarmenn, takk fyrir að gleðja okkur og vera glæsilegir fánaberar landsins okkar erlendis!