Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað um keppnislið í ýmsum íþróttagreinum og mun halda því áfram næstu vikurnar. Í dag er karlalið Þórs frá Akureyri í körfuknattleik kynnt til sögunnar.
  • Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað um keppnislið í ýmsum íþróttagreinum og mun halda því áfram næstu vikurnar. Í dag er karlalið Þórs frá Akureyri í körfuknattleik kynnt til sögunnar.

  • Það hefur verið rík körfuknattleikshefð hjá Þór í marga áratugi, en árið 1967 vann liðið sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn. Einar Bollason, margfaldur Íslandsmeistari og fyrrverandi landsliðsmaður og þjálfari, tók þá við sem spilandi þjálfari og stýrði Þór til 3. sætis í efstu deild tvö ár í röð. Síðan þá hefur Þór flakkað á milli deilda og bíður karlaliðið enn eftir sínum fyrsta titli, en kvennalið félagsins varð Íslandsmeistari 1969, 1971 og 1976.

  • Tvívegis hefur verið ákveðið að stokka spilin hjá Þór og senda liðið niður um deild. Fyrst var það árið 1981 þegar ákveðið var að senda Þór niður í 2. deild og reyna að mynda sigurhefð hjá ungum leikmönnum liðsins eftir mögur ár þar á undan. Síðara skiptið var árið 2002, þegar ákveðið var að draga liðið úr keppni í úrvalsdeild á síðustu stundu og byrja upp á nýtt í 2. deild, fyrst og fremst vegna fjárhagsvandræða körfuknattleiksdeildar Þórs.

  • Þór vann sér aftur sæti í efstu deild vorið 2005 en féll, komst aftur upp og féll á ný vorið 2009. Það var svo ekki fyrr en sjö árum síðar, vorið 2016, sem liðið vann sér sæti á meðal þeirra bestu á ný og er nú á sínu öðru tímabili í úrvalsdeildinni.