ISIS-samtökin hafa látið undan síga en eru enn fjarri því að vera úr leik

Það hafa orðið kaflaskil í baráttunni við ISIS („Ríki íslams“). Á meðan samtökin höfðu forræði yfir stórum landsvæðum í Írak og Sýrlandi og sátu þar m.a. tvær stórborgir, Mosul og Raqqa, styrkti það ríkismynd þeirra og aðdráttarafl.

Nú eru þessar borgir fallnar í hendur liðsafla undir leiðsögn Bandaríkjanna og ekki er vitað hvar leiðtogi ISIS, Abu Bakr Al-Baghdadi, heldur sig. En þrátt fyrir þessi tímamót þykir enn rétt að stilla fagnaðarlátum í hóf. Hryðjuverkasamtökin hafa enn mikil ítök víða. Þeirra sér stað í Sýrlandi og Írak þrátt fyrir hernaðarlega ósigra. Þess utan hafa þau harðsnúna hópa á sínum snærum í Jemen og fjölda stuðningsmanna „neðanjarðar“ í ýmsum ríkjum Afríku þar sem múslímar eru fjölmennir.

Í vikunni kom yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI5 í opinber viðtöl, sem er óvenjulegt, og sagði að hættan á hryðjuverkum væri nú meiri en um langa hríð áður. Þrátt fyrir mikinn víðbúnað yfirvalda væru mörg ríki og Bretland þar með talið, berskjölduð gagnvart þeim.