Þrátt fyrir verulegar innlendar kostnaðarhækkanir á undanförnum árum, meðal annars vegna ríflegra launahækkana, þá hefur verðbólga verið lág á Íslandi. Núverandi tímabil lágrar verðbólgu er reyndar orðið það langt að einhverjir gætu freistast til að trúa því að lág verðbólga sé komin til með að vera, að við séum komin með slík tök á ríkisfjármálum og peningastefnu að lítil hætta sé á hárri verðbólgu.
Það er þó mikilvægt í þessu sambandi að átta sig á því hversu stórt hlutverk hagstæðar ytri aðstæður og styrking krónu hafa leikið í þróun undanfarinna ára. Verðbólga fór undir 2,5% markmið Seðlabankans á fyrrihluta árs 2014, en það ár og fram á árið 2015 lækkuðu erlend aðföng verulega. Þar skipti mestu máli að olía lækkaði um meira en helming, en heimsmarkaðsverð á til dæmis málmum og landbúnaðarafurðum lækkaði einnig umtalsvert á sama tíma. Á miðju ári 2015 hófst einnig samfelld styrking krónunnar, sem lauk seinnihluta árs 2016 og hafði krónan þá styrkst nálægt 20%.
Innlendar kerfisbreytingar, til dæmis afnám tolla og lækkun eða niðurfelling vörugjalda, og aukin samkeppni á smásölumarkaði hafa líka hjálpað til við að halda verðbólgu lágri, en innkoma Costco á markaðinn hefur ein og sér haft mælanleg áhrif á vísitölu neysluverðs.
Nú er staðan hinsvegar breytt. Erlend aðföng eru hætt að lækka og flest byrjuð að hækka á ný. Krónan er hætt að styrkjast, en gengi krónu mælt með gengisvísitölu er um það bil það sama og fyrir ári, og við getum ekki lækkað tolla og vörugjöld sem engin eru. Það er heldur ekki líklegt að önnur eins breyting á smásölumarkaði og varð með innkomu Costco gerist aftur á næstunni. Það er því ljóst að ytri aðstæður og innlendar kerfisbreytingar eru ekki líklegar til að stuðla að lágri verðbólgu á komandi misserum.
Og á sama tíma og þróun ytri aðstæðna og breytingar á heimamarkaði stuðla ekki lengur að lágri verðbólgu er veruleg hætta á innlendum kostnaðarhækkunum, til dæmis vegna launaskriðs í komandi kjarasamningum og innistæðulausra kosningaloforða. Seðlabankinn gæti reynt að vinna gegn þessari þróun með því að ýta undir styrkingu krónunnar, en svigrúm hans til að gera það er líklega takmarkað vegna hættunnar á umtalsvert neikvæðum áhrifum á útflutningsgreinar, þar með talið ferðaþjónustuna.
Við þessar aðstæður er bæði eðlilegt og ráðlegt að fyrirtæki og einstaklingar hugi að vörnum gegn neikvæðum áhrifum verðbólgu. Í grundvallaratriðum felast slíkar varnir annars vegar í því að verðtryggja eignir með beinum eða óbeinum hætti og hins vegar í því að draga úr verðtryggingu skuldbindinga. Í þessu samhengi er einfaldara fyrir flesta að eiga við skuldbindingar en eignir með því að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Það er þó ekki sama hvernig það er gert því óverðtryggð lán með breytilega vexti fylgja oft verðbólgu býsna vel. Til dæmis er fylgni eins mánaðar millibankavaxta við 12 mánaða verðbólgu um 75% sé litið til síðustu 20 ára, en eins mánaðar millibankavextir eru bæði algengur vaxtafótur lána og eru einnig oft notaðir sem viðmið við ákvörðun annarra breytilegra vaxta. Það er því ekki nóg að breyta lánum úr verðtryggðum í óverðtryggð, heldur verður einnig að semja um fasta vexti fyrir það tímabil sem verja á fyrir verðbólgu.
Vonandi berum við gæfu til að afstýra verðbólguskoti í þetta sinn, en það er þó ljóst að í jafn litlu og sveiflukenndu hagkerfi og því íslenska verður verðbólga ekki alltaf lág og því rétt að vera á tánum, ekki síst þegar aðstæður eru að breytast.