Sannur Þórsari Óðinn Ásgeirsson og Hermann D. Hermannsson gegn Warren Peebles, leikmanni Skallagríms, árið 2000.
Sannur Þórsari Óðinn Ásgeirsson og Hermann D. Hermannsson gegn Warren Peebles, leikmanni Skallagríms, árið 2000. — Morgunblaðið/Kristján
Óðinn Ásgeirsson, fæddur 1979, er að öðrum ólöstuðum einn fremsti körfuknattleiksmaður Þórs frá upphafi og það þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að æfa íþróttina fyrr en 14 ára.

Óðinn Ásgeirsson, fæddur 1979, er að öðrum ólöstuðum einn fremsti körfuknattleiksmaður Þórs frá upphafi og það þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að æfa íþróttina fyrr en 14 ára. Eftir að hafa stigið sín fyrstu spor í meistaraflokki Þórs fór hann sem skiptinemi til Jamaíku veturinn 1997-1998 og spilaði þar með skólaliði og úrvalsdeildarliði. Hann átti svo langan feril með Þór í efstu og næstefstu deild hér á landi.

Óðinn fór til KR veturinn 2002-2003 eftir að ákveðið var að senda Þór niður í 2. deild. Hann spilaði svo með Ullriken Eagles í Noregi 2003-2004 samhliða kennaranámi þann vetur, en sneri aftur til Þórs veturinn eftir og lauk ferlinum með uppeldisfélaginu.

Óðinn skoraði mest 37 stig í leik í efstu deild, en það afrekaði hann í leik með Þór gegn Hamri árið 2001. Hann sleit hásin gegn Njarðvík í aðeins þriðja deildarleiknum haustið 2005 og var frá allt það tímabil og segir að þau meiðsli hafi alltaf háð sér í kjölfarið.

Óðinn spilaði með Þórsliðinu allt þar til hann tilkynnti árið 2011 að hann væri hættur, þá 32 ára gamall. Það reyndist þó ekki alveg endapunkturinn, því hann spilaði nokkra leiki með Þór í 1. deildinni vorið 2013.

Óðinn var valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir Norðurlandamótið sumarið 2001 sem haldið var hér á landi. Ísland sendi þá í fyrsta sinn tvö lið til leiks og lék Óðinn þrjá leiki með B-landsliðinu gegn Danmörku, Finnlandi og A-landsliði Íslands.

Óðinn var tvívegis kjörinn íþróttamaður Íþróttafélagsins Þórs, árin 2000 og 2007. Hann var því til viðbótar kjörinn körfuknattleiksmaður ársins hjá Þór árin 2001 og 2010. Þá var Óðinn valinn í úrvalslið efstu deildar tvö ár í röð tímabilin 2000-01 og 2001-02.

Óðinn er í dag kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. yrkill@mbl.is