Á tyllidögum látum við sem Ísland sé með bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

Á tyllidögum látum við sem Ísland sé með bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Það er vissulega rétt að hér starfar afburðafagfólk en á síðustu áratugum hafa íslensk stjórnvöld hvort tveggja vannært heilbrigðiskerfið harkalega og einnig snúið okkar sameiginlega heilbrigðiskerfi upp í gildru ójöfnuðar og stéttaskiptingar. Hér áður ríkti samstaða um að allir landsmenn skyldu eiga rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð fjárhag eða stétt en nú er kostnaðarþátttaka sjúklinga slík að sú samstaða hefur verið rofin.

Kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu hefur á síðustu áratugum tvöfaldast. Það sem áður var gjaldfrjálst krefst nú útgjalda úr heimilispyngjunni og þetta kemur þeim verst sem minnst hafa á milli handanna. Þannig hefur misskipting aukist hér á landi því þeir sem síst skyldi eru látnir borga brúsann.

Ísland er einstakt land, ríkt að auðlindum og við skörum framúr á mörgum sviðum. Stolt greinum við frá afrekum okkar í listum og íþróttum en minna fer fyrir því að við upplýsum að við erum einnig sigurvegarar í keppni við nágrannalöndin þegar kemur að kostnaði sjúklinga við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt rannsókn Eurostat eru í samanburði við nágrannaríki mun fleiri hér á landi sem ekki sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þeir sem helst hafa talað fyrir þessu segja ástæðu kostnaðarþátttöku sjúklinga þá að sporna við ofnotkun á heilbrigðisþjónustu. Eins og fólk muni í meira mæli leita lækninga að nauðsynjalausu. Þetta stenst ekki skoðun því skv. upplýsingum frá Landlæknisembættinu þá virðist ekki sem samdráttur hafi orðið á séraðgerðum á einkastofum utan sjúkrahúsa, s.s. hálskirtlatöku og hnéspeglunum, heldur sýna rannsóknir að hin mikla greiðsluþátttaka í opinberri nauðsynlegri þjónustu hindrar æ fleiri í að leita slíkrar þjónustu. Í umræðunni heyrum við ítrekað af fjölskyldum sem eru að sligast vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar. Alvarlegir sjúkdómar koma harkalega niður á fjárhag fjölskyldna sem draga þurfa úr vinnu vegna veikindanna. Eftir áralanga skattgreiðslu mætti ætla að borgarinn hefði lagt inn fyrir þjónustu þeirri sem nauðsynleg er en því miður fáum við æ oftar að heyra fregnir af því hvernig kostnaður við heilbrigðisþjónustu sem og lyf sligar fjölskyldurnar. Það breytir litlu þó bent sé á að þak sé á greiðsluþátttöku, þegar á hólminn er komið eru það staðreyndirnar sem tala, einstaklingar sitja uppi með mörg hundruð þúsund króna kostnað á ári.

Við erum rík þjóð og við byggðum þetta ríkidæmi saman. Samfylkingin ætlar að endurreisa gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu svo við, sem saman byggjum þetta land, eigum jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi. Þannig byggjum við réttlátt samfélag.

Höfundur er héraðsdómslögmaður og skipar 1. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Höf.: Helga Vala Helgadóttir