Í Fréttablaðinu segir fjármálaráðherra krónuna verri en aðra mynt því hún sveiflist eins og strá í vindi. Afleiðingin sé svo miklu hærri vaxtakostnaður að meðaljóninn gæti tekið fimm vikna frí ef ekki væri krónan. Er þá ekki rökrétt að lækka vextina?
Spurningin er hvort kemur á undan, gengisfallið eða vextirnir? Það er nefnilega þannig að okurvextirnir sem við höfum lengi búið við grafa undan krónunni og fella hana en ekki að krónan hækki vexti og felli gengið. Hvaða vit er því að vera með svo háa vexti að leigjendur húsnæðis geti ekki greitt leiguna án húsaleigubóta frá ríkinu og hinir, sem eru í „eigin“ húsnæði, borgi svo háa vexti að ríkið greiðir þeim vaxtabætur?
Húsaleigu- og vaxtabætur til fjármálastofnana halda við okurvöxtum. Verðtryggingin sér svo um að þeir sem eru í fátæktargildru losni ekki úr henni og borgi áfram okurvexti. Hækki bætur þá hækkar húsaleigan strax og tekjur leigufélaga hækka um milljarða; leigufélaga sem eru byggð á ógæfu þeirra sem lentu í umsátri og misstu húsnæðið þegar skjaldborg var slegin um fjármálafyrirtækin. Það er ekki heil brú í svona kerfi.
Lífeyrissjóðirnir stuðla líka að vaxtaokrinu með því að taka fjármagn út úr hagkerfinu og flytja út með kaupum hlutabréfa í útlöndum. Svo hafa þeir ekkert vit á kauphallarbraski og hafa tapað tugum ef ekki hundruðum miljarða. Betra væri að láta fjármagnið vinna hér heima þjóðinni til heilla.
Það er staðreynd að blessuð krónan dró okkur út úr hruninu. Hefðum við verið með evru og ekki krónu væri hér eymd og volæði; við ekki lengur sjálfstæð þjóð. Grikkir voru ekki svona heppnir. Mér er minnisstæð konan á Krít sem spurði hvaðan ég kæmi. Ég svaraði og hún sagði: Það gengur vel hjá ykkur á Íslandi. Þið eruð svo heppin að vera ekki með evruna og í helvítis Evrópusambandinu, sem aldrei fær nóg og vill alltaf meira og meira.
Merkilegt er að eftir allt sem á undan er gengið skuli hafa verið stofnaður stjórnmálaflokkur um að koma þjóðinni í ESB og taka upp evru. Enn merkilegra er að hann skuli hafa komið manni á þing. Á þingi virðist málefnið eina hafa gufað upp. Í staðinn kom pennastrik til skerðingar á kjörum eldri borgara svo um munar. Hvað skyldi pennastrikið samsvara margra vikna fríi hjá eldri borgurum á skala Benedikts?
Benedikt á þökk skilið fyrir að vilja taka á skattsvikum, sem er aðalmálið og ekki það að taka stóra seðla úr umferð og nota kort, eins og snúið var út úr fyrir honum. Verra er að Benedikt hugsaði dæmið ekki út fyrir kassann. Það er landið. Með evru væri hægt að valsa með fjármagnið út um allt og það í stærri seðlum en tíuþúsundköllum; út og inn án þess að það kæmi fram. Evran kæmi sér sérstaklega vel fyrir þá sem eiga sjóði falda í útlöndum. Þá þyrfti ekki að skipta í krónur við fjárfestingar hér heima eða gera grein fyrir hvaðan fjármagnið kæmi.
Benedikt segir Viðreisn að þakka 0,5% vaxtalækkun þann tíma sem hún var í stjórn. Með sama áframhaldi hefði þessi stjórn lækkað vexti um 2% hefði hún haldið út í þau fjögur ár sem hún tók að sér að stjórna landinu. Guði sé lof að hún fór frá. Vonandi kemur Sigmundur á hvítum hesti og tekur af verðtrygginguna. Þá lækka vextirnir og gengið styrkist.
Höfundur er verkfræðingur, eldri borgari og vinur krónunnar.