Gung Ho er ættað frá Bretlandi en Color Run er bandarískt. Það er jafnframt stærsta skemmtihlaup í heimi, haldið í meira en 300 borgum í 40 löndum.
Gung Ho er ættað frá Bretlandi en Color Run er bandarískt. Það er jafnframt stærsta skemmtihlaup í heimi, haldið í meira en 300 borgum í 40 löndum. — Morgunblaðið/Hanna
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hátt í 20 Gung Ho- og Color Run-skemmtihlaup eru á teikniborðinu um alla Skandinavíu hjá íslenska fyrirtækinu Basic Events.

Basic Events, fyrirtækið sem á skemmtihlaupin Color Run og Gung Ho sem slegið hafa í gegn hér á Íslandi, hefur tryggt sér réttinn fyrir bæði hlaupin um alla Skandinavíu. Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Basic Events, segir að búið sé að ákveða þrjú Color Run-hlaup í Danmörku næsta sumar og verið er að skoða aðra markaði, svo sem Færeyjar, en þarlendir aðilar hafa lýst yfir áhuga á að fá litahlaupið til sín. Þá eru á teikniborðinu að sögn Davíðs 8-12 Gung Ho-hlaup á Norðurlöndunum. „Við hefjum sölu á Gung Ho- og Color Run-hlaupum í Skandinavíu fljótlega. Næsta ár verður heilmikið hlaupaár. Við búum að reynslunni sem við höfum öðlast hér heima með Color Run síðastliðin þrjú ár og Gung Ho nú í sumar. Þá héldum við velheppnað Color Run í Kaupmannahöfn í maí og sömuleiðis gekk Gung Ho-hlaupið okkar í sömu borg nú í september mjög vel, þar sem 4.000 manns hlupu og skemmtu sér konunglega,“ segir Davíð Lúther í samtali við ViðskiptaMoggann.

Tugmilljóna stofnkostnaður

Davíð segir að undirbúningur sé nú í fullum gangi á skrifstofu félagsins í Kaupmannahöfn. „Það er í mörg horn að líta, þar sem áætlanir gera ráð fyrir því að um 70.000 manns muni taka þátt í hlaupum okkar á næsta ári. Við festum kaup á Gung-Ho hlaupabrautinni í ár, auk þess sem við keyptum sérsmíðaðan flutningabíl fyrir allan búnaðinn og nemur stofnkostnaður Gung Ho tugum milljóna króna. Stofnkostnaður Color Run var minni, þar sem við leigðum búnaðinn fyrstu tvö árin, en við erum nú búin að kaupa allan búnað vegna hlaupanna í Skandinavíu.“