Kjörstjórn þjóðkirkjunnar áformar að hefja póstkosningu um nýjan vígslubiskup í Skálholtsumdæmi 6. nóvember. Atkvæðagreiðslan mun þá standa til 20. nóvember og atkvæði talin á biskupsstofu laugardaginn 25. nóvember. Tekið er fram að þessi áform eru háð samþykki kirkjuráðs sem kemur saman til fundar í næstu viku.
Þetta verður seinni umferð vígslubiskupskjörsins þar sem enginn frambjóðandi náði meirihluta greiddra atkvæða í fyrri umferð. Kosið verður á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu, séra Kristjáns Björnssonar, sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, og séra Eiríks Jóhannssonar, prests við Háteigskirkju í Reykjavík.
Á kjörskrá eru 975 manns, leikmenn í starfi þjóðkirkjunnar og prestar og ýmsir starfsmenn kirkjunnar í umdæminu. helgi@mbl.is