Forsvarsmönnum Costco hefur reynst þrautin þyngri að halda í starfsfólk sitt, frá því að verslun fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ opnaði dyr sínar fyrir viðskiptavinum í lok maí síðastliðins. Þannig herma heimildir Morgunblaðsins að af þeim 60 yfirmönnum, sem ætlað var að leiða starfsemina á komandi árum, séu aðeins 15 eftir. Hópurinn var á sínum tíma sendur til þjálfunar á Englandi í aðdraganda opnunarinnar. Því hafa 75% þeirra sem áttu að verða burðarásar í starfseminni hér á landi hætt störfum.
ViðskiptaMogginn leitaði viðbragða Costco við þessum upplýsingum. Sue Knowles, sem er markaðsstjóri hjá Costco í Bretlandi, vildi ekki tjá sig um starfsmannaveltu fyrirtækisins. Hún sagði þó að það ætti við um allar verslanir fyrirtækisins um heiminn að þegar komið væri inn á nýja markaði tæki ákveðinn tíma að fá jafnvægi á starfsmannahald og verslanirnar sem slíkar. „Við teljum þetta [starfsmannaveltuna] ekki meira á Íslandi en á öðrum nýjum stöðum í heiminum.“
Þá hefur ViðskiptaMogginn einnig heimildir fyrir því að meirihluti starfsmanna Costco á Íslandi sé af erlendum uppruna og illa hafi gengið að manna stöður með Íslendingum eins og stefnt hafi verið að. Því hafi fyrirtækið þurft að leggja í gríðarlegan kostnað í tengslum við uppihald starfsfólks sem sent hefur verið á staðinn frá Bretlandi. Sá kostnaður felist ekki síst í því að koma fólki fyrir á gistiheimilum eða hótelum.