Við opnun Costco harðnaði samkeppni á markaðnum svo um munar. Við opnunina fyrr í ár urðu til mörg ný störf en erfiðlega gengur að manna þau.
Við opnun Costco harðnaði samkeppni á markaðnum svo um munar. Við opnunina fyrr í ár urðu til mörg ný störf en erfiðlega gengur að manna þau. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Af um 60 íslenskum yfirmönnum sem sendir voru til Englands í þjálfun í aðdraganda opnunar Costco munu aðeins 15 vera enn í starfi. Fyrirtækið segir ávallt taka tíma að ná jafnvægi í starfsmannahaldi á nýjum mörkuðum.

Forsvarsmönnum Costco hefur reynst þrautin þyngri að halda í starfsfólk sitt, frá því að verslun fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ opnaði dyr sínar fyrir viðskiptavinum í lok maí síðastliðins. Þannig herma heimildir Morgunblaðsins að af þeim 60 yfirmönnum, sem ætlað var að leiða starfsemina á komandi árum, séu aðeins 15 eftir. Hópurinn var á sínum tíma sendur til þjálfunar á Englandi í aðdraganda opnunarinnar. Því hafa 75% þeirra sem áttu að verða burðarásar í starfseminni hér á landi hætt störfum.

ViðskiptaMogginn leitaði viðbragða Costco við þessum upplýsingum. Sue Knowles, sem er markaðsstjóri hjá Costco í Bretlandi, vildi ekki tjá sig um starfsmannaveltu fyrirtækisins. Hún sagði þó að það ætti við um allar verslanir fyrirtækisins um heiminn að þegar komið væri inn á nýja markaði tæki ákveðinn tíma að fá jafnvægi á starfsmannahald og verslanirnar sem slíkar. „Við teljum þetta [starfsmannaveltuna] ekki meira á Íslandi en á öðrum nýjum stöðum í heiminum.“

Þá hefur ViðskiptaMogginn einnig heimildir fyrir því að meirihluti starfsmanna Costco á Íslandi sé af erlendum uppruna og illa hafi gengið að manna stöður með Íslendingum eins og stefnt hafi verið að. Því hafi fyrirtækið þurft að leggja í gríðarlegan kostnað í tengslum við uppihald starfsfólks sem sent hefur verið á staðinn frá Bretlandi. Sá kostnaður felist ekki síst í því að koma fólki fyrir á gistiheimilum eða hótelum.

Tíu hafa flutt til landsins

Spurð út í þessa stöðu vill Sue Knowles ekki bregðast við að öðru leyti en því að af ríflega 420 starfsmönnum hafi 10 starfsmenn frá Bretlandi tekið þá ákvörðun að flytja hingað til lands og þiggja fasta stöðu við verslunina í Garðabæ.